Þriðja færsla. Pistlar lífsins, aðfararorð.

 

Jæja, kannski ekki alveg en nafnið er flott og vísar í að í þeim er byggð upp upp ákveðin rökfærsla sem leiðir til niðurstöðu sem aftur endar í það sem ég kalla Hreyfingu lífsins.  Sem aftur er ákveðin hugmyndafræði sem ég fjalla um í Fjórðu færslu.

Rökfærslan er forsenda alls þess sem á eftir kemur.  Ef maður samþykkir hana þá á maður því miður ekkert val, allur valkvíði er úr sögunni og viðtekur hin fullkomna bjartsýni, að framtíð lífsins sé undir manni sjálfum komin.

 

Ég hef víða gert atlögu að þessu, mér er minnistæð umræða sem spratt út af pistli um meinta fordóma og lesa má um hér. (hægri smella og opna tengil).

http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1222036/

Í innslagi 69 geri ég atlögu að tjá dýpri rök minna pælinga, vissulega mælt af fingrum fram og í samhengi við þá rökræðu sem ég átti á þessum þræði, en samt, hefur gildi þegar það er sett í samhengi viðönnur skrif.

Ég ætla að endurbirta þessi orð mín, minni enn og aftur á samhengið við það sem rætt er á þræðinum en um leið vil ég ítreka að einhverja svona nálgun þarf til að hinn siðmenntaði maður nái yfirhöndina yfir villimanninum sem kann enga leið aðra en dráp og rán til að uppfylla valdgræðgi/gullgræðgi sína.  

Það er jú villimaðurinn sem stjórnar í dag, hugmyndafræði hans, Nýfrjálshyggjan er dauðastefna sem engu eirir.  Því hún afneitar því siðaboði að maður eigi að gæta bróðir síns, heldur megi maður níðast á honum eins og maður vill, bara ef maður græðir á því, og jú, hefur vit á að kaupa upp stjórnmálin svo lögin leyfi allt það óeðli sem manni dettur í hug til að hámarka gróðann.  

Þetta er kjarni illskunnar og hana verður að sigra ef maðurinn vill eiga sér von.  

Þess vegna er svona umræða nauðasynleg og við þurfum öll að kynna okkur hana fyrr en síðar.  

Því stríðið fyrir tilveru mannsins er hugmyndastríð, þar sem góðu er teflt gegn illu.   Hagfræði lífsins gegn Hagfræði dauðans.  Siðfræði lífsins gegn siðfræði græðginnar.  

Allavega, í athugasemdinni hér að neðan kemur innslagið, pistlarnir koma svo í Þriðju færslu, annar hluti.

Á meðan, kveðja.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Innslag 69 í tengslum við pistil sem hét, "Afhverju er trúin alltaf skálkaskjól???"

Það eru góðar þessar tilvitnanir í Jesú þegar hann hreinsar út úr musterinu og eins og þú bendir á þá kannast ég mjög við aðferðarfræðina.  Þarna er lýsing á stríðsmanni og það er nákvæmlega það sem ég hef verið hér í bloggheimi, stríðinn, óvæginn og miskunnarlaus þegar því er að skipta. 

En það býr líka í mér að sjá hlutina frá fleiri hliðum og ég get alveg sett fram mitt mál án þess að höggva mér leið í gegnum andstöðuna.  Þó kveikjan af pistli mínum hafi verið meintur pirringur út í Pál Óskar (sem höndlaði svo mjög vel kynningu sína) þá ég kom víða við og hvessan var mikil  út í bóktrú.  En málið er það að það sem Óskar og félagar átta sig ekki á er að þeir mega ekki setja málin fram á þennan hátt, þú mátt ekki meiða þó þú gerir það í nafni kærleiks.  Þeir þurfa ekki að vera sammála mér að ef þeir upplifa synd, þá eiga þeir að biðja fyrir syndaranum, og auðsýna honum kærleik og umburðarlyndi.  Hinn meinti syndari er jú ekki að veitast að þeim eða neinum öðrum en sjálfum sér, það er jú hann sem þarf að standa dóminn, ekki Óskar og félagar.  

Þeir þurfa ekki að vera sammála þessu en trú gefur þeim aldrei réttinn til að meiða.  En hvort það gefur mér svo aftur réttinn til að meiða þá á þann bitrasta hátt sem orð geta meitt, með rökum úr þeirra eigin ranni í stað stóryrða sem þeir eru vanir að þurfa að kljást við það er annað mál.  Að benda á hver hóf leikinn er alltaf vafamál að réttlæti meiðingar.  Ef ég væri sjálfum mér samkvæmur þá myndi ég biðja fyrir þeim.

En ég er ekki úr þeirra ranni, ég er stríðsmaður.  Hvort sem ég er að berjast til að vernda mig og mína eða fyrir málstað eða gegn því að aðrir geri öðrum óþarflega illt, það skiptir ekki máli, stríð eru óvægin.

Og þá kem ég aftur að mínum útgangspunkt sem mig langar að ræða, og það án þess að sveifla sverðinu óþarflega mikið.

Stríðsmaðurinn Jesú fær mig oft til að efast um guðlegan uppruna hans en hann er svo miklu meira og þegar maður lítur á aldarháttinn og þann menningarheim sem hann fæddist inni, menningarheim hinna grimmu harðlyndu Semíta, þá er það eiginlega með öllu óskiljanlegt að mannlegur hugur skyldi hafa náð að hefja sig svo yfir tíðarandann og boða frið og kærleik sem lausn á mannanna meinum.

Það sem ég er að reyna að segja, og í guðanna bænum ekki hengja þig á orð mín heldur þá hugsun sem ég er að reyna að tjá með þeim, er það gerðist eitthvað í Galíeu sem hafði aldrei gerst áður og mér vitanlega hefur aldrei gerst síðan.  Mér finnst það svo einstakt að ég tengi það við almættið þó ég hafi svo sem ekkert fyrir mér í því annað en trú mína en það er algjört aukaatriði málsins.

Það sem gerðist, það gerðist.

Og það sem gerðist var að maðurinn eignaðist von um björgun frá sjálfum sér.  Algjörlega ný hugsun var orðuð á þann hátt að aðrir skildu og samsinnuðu sig við.  Steinn Steinar orðaði þessa Sýn sem svo að Jesú hefði á unga aldri sagt við vin sinn, "að allir verða góðir eins og blómin".  Aðrir segja "elskaðu náungann eins og sjálfan þig" og að þú eigir að gæta þíns minnsta bróður og ef menn bæta við að börnin eigi að erfa guðsríkið þá er maður kominn nálægt kjarnanum en hvernig hann var nákvæmlega orðaður vitum við ekki því sjónvarpið var ekki á staðnum.  Orð Jesús eru aðeins þekkt gegnum milliliði sem sögðu frá sinni upplifun sem óhætt er að segja að hafi verið mjög mismunandi eftir því hver átti í hlut.

Mér finnst Steinn draga þetta mjög vel saman í þessa einu setningu, að vera góðir eins og blómin.  Í heimi þar sem fólk gat ekki reiknað með að deyja náttúrulegum dauðdaga vegna allskonar ófriðar og hermdarverka þá skilja allir hvað átt er við með að vera góðir eins og blómin.  

Jesús tengdi þennan boðskap sinn við guðstrúna og áminnti menn um hvað gerðist á efsta degi, þeir yrðu dæmdir.  Menn túlka það vissulega á misjafnan hátt, mín túlkun þarf ekki að vera réttari en hver önnur, þetta er eitthvað sem menn finna þegar þeir skynja almættið.

Við höfum haft 2.000 ár til að skilja inntak boðskaps Jesús, að skilja í hvað von mannsins er fólgin.  Við fáum ekki lengri tíma, tímaglasið er útrunnið.

Þessi von hefði ekki lifað nema til hefði komið skipulögð stofnun, kirkjan sem hefur varðveitt boðskapinn og þá bæði með gjörðum sínum og með hinni helgu bók, biblíunni.

Okkur greinir á um það Jón Valur á hvaða hátt boðskapurinn hefur varðveist en við erum sammála um að hann hafi varðveist.

Og það eigum við kirkjufeðrunum að þakka.  Við erum líka sammála um það.

Þér hefur mislíkað hvað ég hef verið óvæginn í garð kirkjufeðranna en svona erum við stríðsmennirnir, við erum ekki alltaf sanngjarnir.  Örugglega áttu margir víxlararnir skilið hin hörðu orð Jesús en þeir voru að gera fátt annað en hefðin hafði vanið þá á, þeir stunduðu sín viðskipti þar sem fólk kom saman.  

Eins var það með kirkjufeðurnar, þeir áttu ekki aðra valkosti en að aðlaga hina nýju trú að því samfélagi sem hún átti að þjóna og þá gerðu þeir ýmsar málamiðlanir.  Þessar málamiðlanir eru ekki svik og fals, þær eru einfaldlega að hætti samtímans.  Það hefði ekki gert hinni nýju trú neitt til góðs ef þeir hefðu mætt með gítarinn og sungið "all you need is love", þeir voru ekki að prédika yfir hippum, þeir voru að reyna bæta samfélag á tímum feðraveldis og þeir voru um leið í óvægnu hugmyndastríði við önnur trúarbrögð, heiðni þar á meðal.

Við setjum út á ýmislegt í dag sem þeir sögðu en gleymum hvað það var gífurlega mikil bylting í boðskap þeirra, og hvað sá boðskapur bylti miklu.  Hann gerði heiminn sannarlega betri, hann gerði hlutskipti okkar í dag, sannarlega betra.

Því þeir kenndu muninn á réttri breytni og rangri.  Og hvort þeir fóru allir eftir þeirri breytni í  hinni óvægnu valdabaráttu raunveruleikans, skiptir ekki máli, þeir kenndu hana.

Og kenningin lifir og hún bætti smán saman heiminn.  Hún bætti raunveruleikann, hún gerði heiminn lífvænlegri.

Þegar ég hamra á ófögnuðinum sem fylgdi rómversku valdastéttinni þá geri ég mér mæta vel að svona voru tímarnir og trúin bar ekki ábyrgð á þeim, hún var tilkomin til að breyta honum  en hún gat aldrei annað en verið hluti af þeim raunveruleik sem var.  Ég hamra á þessu til að sýna hve það er hæpið að tengja heilagan anda við nákvæmlega þetta og hitt sem var sagt og gert.  

Ef trú okkar er heil og heilbrigð þá þolir hún raunveruleikann og raunverulegar staðreyndir.  Það er eitthvað í henni sem er betra en nokkur maður getur skemmt.  

Fyrst það er staðreynd að Jesús skrásetti ekki kenningar sínar og það er staðreynd að eftir hans daga hefur enginn óumdeildur spámaður komið fram, þá verðum við að sætta okkur við hið ófullkomna, við hina dauðlegu hönd sem kom að ritun orða hans og við verðum að gera okkur grein fyrir að dauðlegur maður getur aldrei tjáð guðdóminn á þann hátt að ekki megi efast eða deila um.

Þess vegna er þetta jú trú.

Persónulega finnst mér það miður að kirkjufeðurnir, dauðlegir menn eins og ég og þú, að þeir skyldu hafa sett fordæminguna inní hinn heilaga texta en hin hliðin er; hvað gátu þeir annað????  Upphafið sig yfir samtíð sína á þann hátt að enginn hefði skilið þá???? Verið með 21. aldar rétttrúnað svo við værum sátt við þá í dag???  En hver verður rétttrúnaðurinn eftir tvær aldir, það er ef nógu margir kristnir menn skilji trú sína áður en það verður of seint, hvað segja menn þá????

Og það sem meira er, væri við stödd hér í dag á þann hátt sem við erum, ef kirkjufeðrunum hefði ekki borð gæfu til að setja mál sitt á þann hátt að trúin festi rætur á þeirra samtíð????

Það er ekkert einhlítt í einu eða neinu nema þá kannski sannleikurinn en meinið er að við þekkjum hann ekki.  Við höfum kannski hugmynd um hann en við þekkjum hann ekki.

En ég get fullyrt að það er ekki sannleikur að guð muni tortíma öllu lífi en fáir útvaldir muni lifa.  Vegna þess að ég veit að sköpunin er ekki ill, guð er ekki djöfull þó ýmsir evanglískir söfnuðir vinni út frá þeirri kenningu.

Hvað sem Jóhannes sá þá var hann ekki að tjá þessa skoðun.  

En hann sá fyrir átök og uppgjör og er ekki einn um þá Sýn.

Hann sá fyrir hlutverk hinna trúuðu í þeim átökum.  Hann sá fyrir upprisu mannsins.  En hann hafði enga þá heimsmynd eða orð til að tjá veruleik og tækni 21. aldar þegar þetta uppgjör fer fram.  Það er því undir okkur komið hvernig við upplifum orð hans og tíminn mun svo skera úr.  

Við getum líka alveg hafnað þeim en það breytir því ekki að staðreyndir raunveruleikans styðja Sýn hans, uppgjör er í námd.

Von mín og trú er sú að Kristin trú verði til góðs í þeim átökum sem framunda er.  Að hún rífi sig uppúr fordæmingarferlinu og játist boðskap Jesú Krists skilyrðislaust. 

Það er hans upprisa, sjálf  upprisa mannsins.

Dagurinn sem maðurinn ákvað að leysa vandamál sín og deilur á annan hátt en þann en að drepa náungann.

Ég trúi fáu en ég trúi þessu.

Það kviknaði ljós í Galíleu fyrir 2.000 árum síðan og það ljós er leiðarstjarna mannsins til nýrrar framtíðar.

Á jörðu en ekki himni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.8.2012 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hreyfing lífsins.

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Í upphafi var orðið.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 328

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband