Önnur færsla um ICESave frumvarpið

 

Í þessari færslu ætla ég að taka fyrir greinargerðina með frumvarpinu til að varpa ljós á bæði rangfærslur, hæpin vafaatriði sem og hvað allur málflutningur var samdauna sjónarmiðum breta og ESB. 

Ég tek nokkur atriði hér í megintexta en svo kemur megin yfirferð mín í athugasemdum hér fyrir neðan.  Bæði til að brjóta upp en líka vegna þess að Refurinn minn leyfir illa peist og ég því miklu fljótari að henda þessu inn í athugasemdarkerfið. 

Ég er fyrsta umræðan til að ná utan um öll atriði, bæði get ég bætt inn, og svo gæti alltaf hugsast að fleiri slægjust í hópinn til að ná fram þessu vopni sem fjármálamafían gæti ekki staðist, samanber að eitt leiðir að öðru, og mikilvægasta taktík í stríði er að hafa stjórn á atburðarrásinni en ekki láta andstæðinginn sí og æ stjórna þínum gerðum.  Rökstudd kæra með eftirfylgni myndi alltaf koma leppunum og skreppunum í nauðvörn.

 

Það fyrsta sem mig langar til að hnykkja á er þetta með nauðung, að orð eða samningur við þau skilyrði, binda engan þegar nauðung er aflétt.  Samningaferli ríkisstjórnarinnar var því að fúsum og frjálsum vilja.  Vitna í Björk Thorarensen lagaprófessor.  

 
"Það var ekki um annað að ræða að gangast undir þá þvingun að taka lán, sem rennur að hluta til þess að ábyrgjast greiðslur tryggingasjóðsins, nokkuð sem ríkinu ber engin lagalega skylda til, hvorki eftir Evróputilskipun né öðrum þjóðréttarreglum. Samningar af þessum toga eru á lögfræðimáli kallaðir nauðungarsamningar. Ekki aðeins í okkar lögum heldur einnig í þjóðaréttinum – og slíkir samningar eru raunar ógildanlegir.".

 

Og á þessu er hnykkt hér: "að rétturinn til dómstólameðferðar er varinn af íslensku stjórnarskránni, mannréttindasáttmála Evrópu og raunar gildir hann einnig hjá þeim ríkjum sem við höfum deilt við í málinu" svo ég vitna í grein Sigurðar Líndal og Jón Steinars Gunnlaugssonar í Morgunblaðinu."

Skýrist betur í umfjölluninni að neðan.

 

Annað er þessi klausa hérna úr greinargerðinni.

 

"Þessari skoðun hefur verið haldið skýrt til haga í öllum viðræðum við stjórnvöld viðkomandi ríkja eftir að bankarnir féllu. Þessari lagatúlkun hefur hins vegar verið alfarið hafnað, ekki einungis af þeim ríkjum sem hlut eiga að máli heldur öllum ESB-ríkjunum og Noregi að auki."

 

Mig langar að benda á mjög alvarlega lögfræðilega villu í þessum orðum.  Lagatúlkun er hafnað af öllum málsaðilum en það segir ekkert til um lagarök Íslands eins og Stefán Már prófessor útskýrði reglur ESB.  Það er gert með rökum, lögfræðilegum rökum sem allir vita í dag voru ekki til.  En hér er látið í skína að við hljótum eiginlega að rangt fyrir okkur fyrst við erum ein á báti. 

En hagsmunir geta skýrt afstöðu annarra, og svo fylgispekt smærri ríkja.  

Þetta er eins og viðhorfið til lagatúlkunar í alræðisríkjum eins og Þýskalandi á fjórða áratugnum.  Þá fór túlkun laga ekki eftir því hvað stóð í lögum, heldur hver vilji stjórnvalda var á hverjum tíma.

Og eiginlega er verið að gefa í skyn í greinargerðinni að íslensk stjórnvöld hafi mætt slíku alræði, og það yrði að beygja sig fyrir því.  Ef satt er þá er það grafalvarlegt mál, en ber meir merki ofsóknaræðis.

 

Þriðja er þau gervivísindi að auknar skuldir og skuldbindingar hækki lánshæfimat, dragi að fjárfestingar, auki stöðugleika.  Og skili þar með beinum tekjum í kassann.  

 

 

Það að gera ekkert er heldur ekki fær leið. Slíkt mundi leiða til algerrar einangrunar Íslands í alþjóðlegum fjármálasamskiptum og fyrir þjóð sem byggir velferð sína á greiðum útflutningsviðskiptum er slíkt einfaldlega ekki valkostur. .....
Vart þarf að hafa mörg orð um það hvað hefði orðið um lánshæfismat ríkisins ef íslensk stjórnvöld neituðu að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar og semja vegna Icesave- málsins. Fyrir utan þá óvissu sem sá gjörningur hefði valdið þá er ljóst að lánshæfismat ríkisins hefði skaðast verulega enda hefði verið litið svo á að íslensk stjórnvöld væru að hlaupast undan alþjóðlegum skuldbindingum sínum.
 

Raunveruleikinn var sá að þær þjóðir sem tóku á sig svona skuldbindingar, lækkuðu hratt í lánshæfi, og þær eru í vítahring samdráttar.  Rökin í þessari fullyrðingu er pólitísk, þau eru sama eðlis og rök kaþólsku kirkjunnar gegn útreikningum Galileo.  Orð gegn stærðfræði, orð gegn náttúrulögmálum, orð gegn þekktum afleiðingum of mikillar skuldsetningar.

Og það er ekki þannig að það hafi ekki verið vakið athygli á þessu í umræðunni, og það af þekktum fræðimönnum fyrst allt sem íslenskir varnarmenn þjóðarinnar voru afgreiddir sem heimafræðimenn, þá var ekki hægt að afgreiða hina erlendu á sama hátt.  Enda ekki gert, það var þagað, það var hundsað.  Sem í svona máli er ekki í þágu hagsmuna þjóðarinnar, heldur þess aðila sem fjárkúgaði þjóðina.

En mig langar að vitna í varnaðarorð og hafa það sem endi á þessum pistli, meginmálið kemur svo í athugasemdunum.  Langt, en mun styttra en ævilangur skuldaþrældómur sem bíður okkar ef þessir leppar vogunarsjóðanna verða ekki stöðvaðir áður en þeir ná að framkvæma hinn endanlega skaða.

Þetta er tekið úr frétt Mbl.is frá 06.01 2010.

Fullyrðingar í fjölmiðlum um að Ísland verði útskúfað frá fjármálamörkuðum ef það tekur ekki á sig þessa skuldabyrði eru fjarstæða. Þvert á móti myndi skuldafjallið og skattahækkanirnar sem þær myndu kalla á fæla á brott erlenda fjárfesta.“ Þetta segir Sweder van Wijnbergen, prófessor í hagfræði við Háskólann í Amsterdam, um umræðuna um skuldbindingar Íslendinga vegna Icesave.
Van Wijnbergen þekkir vel til skuldaaðlögunar ríkja í miklum fjárhagserfiðleikum en hann hefur meðal annars starfað að slíkum verkefnum hjá Alþjóðabankanum og fyrir hönd stjórnvalda í Mexíkó, Póllandi, Albaníu og Egyptalandi og víðar, en öll tóku þessi ríki krappar efnahagsdýfur undir lok síðustu aldar. „Skuldir þessara ríkja voru miklu minni. Ég nefni sem dæmi að á sínum tíma var rætt um að Mexíkó gæti ekki staðið undir skuldum sem námu 60% af þjóðarframleiðslu. Mexíkó var þá þróunarland sem Ísland er auðvitað ekki en það blasir engu að síður við að íslenska þjóðin getur ekki staðið undir skuldabyrði sem nemur mörg hundruð prósentum af vergri þjóðarframleiðslu.“.

 

Skuldir hafa alltaf skapað kreppu, ekki hagvöxt, fullyrðingar um annað er klár lygi.

Sem í samhengi við alvarleika málsins, er þátttaka í fjárkúguninni, sem er að vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar, sem er landráð samkvæmt ákvæðum laga þar um.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Ríkisábyrgð vegna ICESave.

 

Fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilt að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ríkisábyrgð vegna lána sjóðsins frá breska og hollenska ríkinu samkvæmt samningum dags. 5. júní 2009 til að standa straum af lágmarksgreiðslum, sbr. 10. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Ábyrgðin tekur til höfuðstóls lánanna eins og hvor um sig mun standa að sjö árum liðnum frá undirritun samninganna, 5. júní 2016, auk vaxta af lánsfjárhæðinni, og afmarkast að öðru leyti af ákvæðum samninganna, þ.m.t. um endurskoðun þeirra.

 

Í þessu sambandi var hagsmuna Íslands ekki gætt svo nam milljörðum í vaxtakostnað.

Ef það var greiðsluskylda þá átti að láta lán ekki vaxtaberast fyrr en lokadaginn sem átti að greiða út, LÍ var með innlánstryggingu hjá breska innlánstryggingasjóðnum, sem hljóði þannig að hún tæki við þegar heimatrygging þryti, úrskurð þurfti um þetta ákvæði, bretar litu greinilega á að þeim bæri skylda til að greiða, því þeir greiddu strax út um leið og LÍ var komið í þrot.

Á hvaða lagagrunni áframsendu þeir reikninginn, miðað við bresk lög???

Og af hverju byggðist málsvörn íslenskra stjórnvalda ekki á tilvísun í þessa viðbótartryggingu.  Rök um hana, hafa hvergi komið fram hjá íslenskum stjórnvöldum, ergo þau gættu ekki hagsmuna landsmanna, heldur skrifuðu uppá kröfur breta.

Tilvísun í meinta hótun er dylgjur sem aðrar þjóðir kannast ekki við.

Þetta kemur svo skírt fram í athugasemdum.

 

  Innan EES gildir síðan að útibú er rekið að meginstefnu til undir eftirliti stjórnvalda í heimaríki og, það sem mestu skiptir í því máli sem hér fjallað um, fellur undir tryggingakerfi innstæðna í heimaríki sínu.

 

3.2. Dótturfélög.
    Íslensku bankarnir keyptu á svipuðum tíma erlenda banka og gerðu að dótturfélögum sínum. Í Bretlandi keypti Landsbankinn Heritable banka og Kaupþing keypti Singer & Friedlander (KSF). Í báðum tilvikum er um breska banka að ræða sem lúta fullu eftirliti breskra yfirvalda öfugt við það sem gildir um útibúin. Innstæður í Heritable og KSF voru því tryggðar í innstæðutryggingakerfi Bretlands.

 

Hvergi sagt frá þessari viðbótartryggingu.

Sjá einnig hér.

    Í október 2006 hóf Landsbankinn að taka við innlánum undir nafninu Icesave í Bretlandi. Útibúið í Hollandi hóf að taka við innlánum síðari hluta maí 2008. Hér er rétt að endurtaka að íslenski tryggingarsjóðurinn ber ábyrgð á innlánum útibúa íslenskra banka, hvort sem þau eru hér á landi eða erlendis. Ábyrgð vegna innstæðna dótturfélaga íslenskra banka erlendis fellur hins vegar á tryggingarsjóð þess lands þar sem dótturfélagið er staðsett og því bar breski tryggingarsjóðurinn ábyrgð á innstæðum á svokölluðum Edge-reikningum hjá Kaupþingi vegna þess að þeir reikningar voru hjá dótturfélagi Kaupþings, KSF.
    Í október 2007, ári eftir að London-útibú Landsbankans hóf að taka við innlánum, var fjöldi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi orðinn 105 þúsund. Þessir reikningar hlóðu á sig miklum fjárhæðum og allt var þetta með starfsleyfum og undir eftirliti frá FME og Seðlabankanum í ákveðnu samstarfi þó við stjórnvöld í gistiríkjunum. Innlánasöfnunin hélt áfram af fullum krafti allt til síðasta dags og vekur þar sérstaka athygli að nokkrum mánuðum fyrir bankahrunið, eða í maí 2008, opnaði Landsbankinn Icesave-reikninga í Hollandi og náði að safna þar á annað hundrað þúsund viðskiptavinum áður en bankinn féll 6. október sama ár. Við hrun voru heildarinnstæður í Hollandi 1.674.285.671 evrur og í Bretlandi 4.526.988.847 pund, eða alls um 1.244 milljarðar króna á núverandi verðlagi.

 

Hér er svo verið að lýsa einhliða ákvörðunum breta um að greiða sínum innlánseigendum eins og lög breska tryggingasjóðsins gera ráð fyrir, enda LÍ með viðbótartryggingu.

Um helmingur innstæðna London-útibúsins hefur því verið greiddur út af breska innstæðutryggingarsjóðnum og breska ríkinu. Breski tryggingarsjóðurinn (FSCS) greiddi innstæðueigendum upp að 50.000 pundum. Breska ríkið greiddi svo afgang innstæðnanna, þannig að almennir breskir innstæðueigendur hafa fengið innstæður sínar greiddar að fullu.

 

Athyglisvert er að bretar greiða ekki þeim sem féllu utan tryggingar FSCS, viðbrögð þeirra benda því eindregið til að þeir séu aðeins að standa við ákvæði topup tryggingarinnar sem LÍ var með.  Annars hefðu þeir greitt öllum sem áttu rétt á tryggingu hjá íslenska tryggingarsjóðnum.

 

Þessir innlánseigendur njóta íslenskrar lágmarkstryggingar (20.887 evrur) og munu fá greitt úr þrotabúi Landsbankans eins og aðrir forgangskröfuhafar eftir því sem skiptum vindur fram.

Ef markmiðið var að láta alla sem voru tryggðir hjá TIF fá strax greiðslur, þá átti þessi hópur ekki að detta  upp fyrir og bíða eftir framvindu mála.  Rökleysa sem blasir við og sannar að greiðsluskylda TIF réði ekki hinu meinta láni frá bretum og Hollendingum.  Því þá áttu menn að fá lánað fyrir allri upphæðinni.

Það voru þeirra skuldbindingar, tryggingar sem LÍ var með hjá þeirra eigin tryggingarsjóðum.  Enda lætur engin fjármálamiðstöð banka safna innlánum án fullnægjandi trygginga.  Bretar vissu mæta vel að TIF gat ekki greitt út vega ICEsave, þess vegna kröfðu þeir LÍ um að taka viðbótartryggingu hjá breska tryggingasjóðunum sem tæki við þar sem íslenska tryggingin þryti.  Þeir kröfðu bankann ekki um að afla sér baktryggingar íslenska ríkisins.

Ómar Geirsson, 7.2.2013 kl. 08:08

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Réttlæting að vísa í yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda,

Íslensk yfirvöld höfðu ítrekað nokkrum sinnum að sjóðurinn mundi standa við skuldbindingar gagnvart innstæðueigendunum og að yfirvöld mundu styðja sjóðinn til þess ef þörf kræfi og gerðu það áfram dagana eftir hrun bankanna.

 

En málið er það var akkúrat þetta sem íslensk stjórnvöld gerðu, þess vegna settu þau ákvæði í neyðarlögin um forgang innstæðna.  Til þess að TIF gæti staðið við skuldbindingar sínar að lokum.

Hérna er skýrt tekið fram að krafan miðist við gengi á ákveðnum tímapunkti, og skal hún reiknast í íslenskum krónum.  ICEsav skuldin er síðan í erlendri mynt og þar með myndast gengismunur ef krónan fellur.  Við gengishrun krónunnar þarf því þrotabúið miklu færri pund og evrur til að greiða höfuðstólinn í íslenskum krónum.  En lánið er í pundum og evrum, og þó þrotabúið greiði allt í krónum talið, þá stendur samt eftir skuld vegna höfuðstólsins sem fellur á íslenska ríkið.  Þetta er hin tifandi tímasprengja samkomulagsins, og hún var ekki heldur aftengd í ICEsave 3, þó hún hefði þar minni áhrif vegna þess að styttra var í endurgreiðslur úr þrotabúinu.  En þegar skrifað var undir samkomulagið, þá vissi enginn um þróun gengis eða viðskiptakjara, og í upphafi heimskreppu er svona óútfylltur tékki óafsakanlegur.  

Þess vegna er lítið sem ekkert talað um þessa áhættu í greinargerðinni, aðeins talað um allar líkur á gengisstyrkingu.  En sjá hér að neðan.

Að lokum er rétt að taka fram að samkvæmt ákvæðum laga nr. 44/2009 skal umreikna kröfur í erlendum gjaldmiðli í kröfuskrá í íslenskar krónur eftir opinberlega skráðu sölugengi 22. apríl 2009. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að útgreiðsla úr búi Landsbankans verði í erlendri mynt.

Þetta er fresturinn sem ég vísaði í að ofan, það að semja um lán sem ber vexti fyrir þann tímapunkt er skaði sem fellur á íslenska skattborgara.  Bretum bar ekki og þeir áttu ekki að greiða einhliða.

Greiðsluskylda.
    Samkvæmt 9. og 10. gr. laga nr. 98/1999 er Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta skylt að greiða viðskiptavinum aðildarfyrirtækis sjóðsins andvirði innstæðu allt að 20.887 evrum að fullu ef Fjármálaeftirlitið hefur gefið út álit um að viðkomandi aðildarfyrirtæki sé ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðna sem viðskiptavinur hefur krafist greiðslu á. Dugi eignir sjóðsins til skal greiða hlutfallslega jafnt inn á kröfur eftir að allir kröfuhafar hafa fengið greidda lágmarksfjárhæðina 20.887 evrur. Á grundvelli þessa gaf Fjármálaeftirlitið út álit 27. október 2008 þess efnis að Landsbanki Íslands hf. hefði ekki verið fær um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðna af Icesave-reikningum viðskiptavina bankans í Hollandi og Bretlandi. Skapaðist þá greiðsluskylda Tryggingarsjóðs vegna þessara innstæðna. Greiðslu skal inna af hendi innan þriggja mánaða þaðan í frá, en heimilt er að framlengja þann frest allt að þrisvar sinnum um þrjá mánuði í senn og hefur sú heimild verið nýtt tvisvar sinnum, annars vegar í lok janúar og hins vegar í lok apríl 2009. Er ráðherra heimilt að framlengja þennan frest einu sinni enn samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 120/2000 og ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins. Því getur frestur Tryggingarsjóðs til að inna greiðslu af hendi aldrei orðið lengri en til loka október 2009.

Vafi vegna greiðsluskyldu er reifaður en síðan kemur hið kostulega, að hinn deiluaðilinn hafi ekki verið sammála.

Íslensk stjórnvöld töldu ljóst að forsendur tilskipunarinnar væru hrun einstakra banka en ekki almennt kerfishrun. Því væri vafi á því að tilskipunin ætti við með sama hætti í slíkum tilvikum og nauðsynlegt væri að fá úr því skorið með lögformlegum hætti fyrir dómstóli eða gerðardómi hvort íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslur til innlánseigenda ef þær færu fram úr því sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta gæti staðið undir af inngreiðslum í sjóðinn.
    Þessari skoðun hefur verið haldið skýrt til haga í öllum viðræðum við stjórnvöld viðkomandi ríkja eftir að bankarnir féllu. Þessari lagatúlkun hefur hins vegar verið alfarið hafnað, ekki einungis af þeim ríkjum sem hlut eiga að máli heldur öllum ESB-ríkjunum og Noregi að auki
.

Það er Landdóms að meta hvort sú höfnun hafi verið fullnægjandi, stjórnvöld vísa í hótanir, en hvar eru þær hótanir, skriflegar, beinar og svo framvegis. 

Þá er vísað í AGS lánið, en til hvers átti að nota það lán.  Mikill afgangur var af utanríkisviðskiptum strax eftir hrun og meint greiðslufall þjóðarinnar úr sögunni.  Enda er gjaldeyrisvarasjóðurinn hugsaður til að greiða út krónueigendum aflandskróna á ákveðnu gengi.  En var það réttmæt ástæða að stefna fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í voða af þeim ástæðum.  Þegar Svavarssamningurinn var gerður var öll nauðung úr sögunni. 

Eftir stóð skilyrðið að greiða út krónubréfaeigendur, en þeir voru fastir vegna gjaldeyrishafta.  Og þeim hefur ekki verið greitt, þriðjungi lánsins þegar skilað.  Hvað réttlætir þá hina risstóru ríkisábyrgð sem stefndi fjárhaglegu sjálfstæði þjóðarinnar í voða??  AGS lán sem hvorki var þörf fyrir eða notað.

Síðan er hlutum snúið á haus í réttlætingunni.

Staðreyndin er þó sú að allar leiðir til þess að leggja málið í dóm eða gerð mundu krefjast samþykkis allra málsaðila í samræmi við óumdeilda meginreglu þjóðaréttar. Bretland og Holland þvertóku fyrir slíkan málarekstur og voru studd af öllum Evrópusambandsríkjunum auk Noregs. Rök þeirra voru samhljóða á þá leið að takmörkun ábyrgðar við eignir tryggingarsjóða væri fráleit lögfræðileg túlkun og málarekstur um slíkt væri til þess eins fallinn að grafa undan, ef ekki kollvarpa, trausti á fjármálakerfi allra Evrópuríkja.

Ef einhver krefur þriðja aðila um ábyrgð eða peningagreiðslu, og sættir sig ekki við að láta dómsstóla skera úr um réttmæti viðkomandi kröfu, þá nær krafa hans ekki lengra.

Ef hann heldur áfram að innheimta, þá er það á grundvelli innheimtuaðferða mafíunnar, handrukkun.  Að vilja ekki fara með málið fyrir dóm er það sama og viðurkenna að þú sért að beita fjárkúgun.

Þessi afsökun er því algjörlega marklaus.

Ómar Geirsson, 7.2.2013 kl. 08:22

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Og það er hnykkt á markleysi hennar með þessari umfjöllun um EFTA dóminn, eina úrskurðaraðila málsins hvað varðar íslensk stjórnvöld.

 2. EFTA dómstóllinn.
        Hugsanlegt er að Eftirlitsstofnun EFTA höfðaði mál gegn Íslandi vegna brota á EES samningnum fyrir dómstóli EFTA. Dómur í slíku máli myndi aðeins slá því föstu hvort viðkomandi ríki hafi brotið skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum (þ.e. kveða upp viðurkenningardóm) en hvorki kveða á um skaðabótaskyldu né fjárhæð hugsanlegra bóta. Auk þess væru hvorki Bretar né Hollendingar bundnir við niðurstöðu í slíku máli. Verður því að efast um að slík meðferð komi að nokkru gagni við lausn þess vandamáls sem hér er til meðferðar
.

Hvað áttu bretar og Hollendingar að gera???

Halda áfram með handrukkunina?? Beita þvingunar úrræðum sem varða við stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna eða stofnsáttmála Nató??   Ekki heil brú í rökfærslunni.

Í kjölfarið er síðan logið, um vafa um niðurstöðu. 

Samningaleið.
    Þrátt fyrir að reynt hafi verið til þrautar að fá deiluna um túlkun ábyrgðar íslenska ríkisins lagða fyrir dóm var allan tímann ljóst að tvísýnt væri um hvort það tækist og enn tvísýnna um niðurstöðu slíkrar dómsmeðferðar hefði hún náðst. Stjórnvöld gerðu því alltaf ráð fyrir að til þess gæti komið að þau þyrftu að styðja við Tryggingarsjóðinn til að hann gæti uppfyllt skuldbindingar sínar. Þegar fyrir lá að bresk og hollensk yfirvöld höfðu leyst til sín þorra krafna innstæðueigenda á sjóðinn varð jafnframt ljóst að semja þyrfti um hvernig uppgjöri yrði háttað.

Þetta er rógur á EFTA dóminn, lögin voru skýr, þau voru hugsuð gegn ríkisábyrgð, ekki til að staðfesta hana.  Þetta er fullyrðing án algjörs rökstuðnings, ekki byggð á neinum lögskýringum nema lögskýringum fjárkúgarana.

Það er ásetningarbrot að halda fram vafa gegn skýrum lagatexta.  Og þegar þessi lagatexti kveður á um sakleysi þitt eða þjóðar þinnar, en vafa samt haldið fram, af þeim sem ber skyldu að verjast hinni ólöglegu kröfu (hún er ólögleg því ágreiningur um vafa er alltaf leystur fyrir dómi áður er lagt er af stað í innheimtuleiðangur), þá er ljóst að sá á að verjast, hann stendur með gagnaðilanum og hefur þar með brugðist sínum skyldum. 

Verjandi getur aldrei unnið fyrir sækjanda, og þegar um ólöglega ásælni í skatttekjur ríkisins er um að ræða, og það af hendi erlends valds, þá taka lög um landráð á slíkri hegðun.  Margt er leyft í heiminum en hvergi er fólki leyft að vinna gegn sjálfstæði sinnar eigin þjóðar.  Slíkt varðar allstaðar við lög.  

Vegna þess að þar sem það hefur verið leyft, er ekki lengur um sjálfstæð ríki að ræða.

 

Ómar Geirsson, 7.2.2013 kl. 08:31

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Má semja um hvað sem er??????

 

9.1. Lánasamningur.
    Samkvæmt 5. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 177/2007 um Stjórnarráð Íslands fer fjármálaráðuneyti með lánsfjármál ríkissjóðs, lántökur ríkisstofnana og ríkisábyrgðir. Slíkir samningar eru einkaréttarlegs eðlis og teljast því ekki til milliríkjasamninga þótt gagnaðili sé erlent ríki í einstöku tilviki. Forsvarsmenn ríkisins þurfa þó að sjálfsögðu að hafa fullnægjandi heimildir til gerðar slíkra samninga hverju sinni, eða gera samningana með fyrirvara um slíkar heimildir.

Er ekkert í öðrum lögum og reglum sem bannar stjórnvaldi á hverjum tíma að skrifa undir skuldbindingar sem skerða fullveldi þjóðarinnar eða stórlega skerða fjárhagslegt sjálfstæði hennar???

Má leggja niður lögbundið hlutverk ríkisins í mennta og heilbrigðismálum eða afnema almannatryggingar með einu pennastriki á skuldabréfi sem hirðir lungann af tekjum ríkisins????

Hvar liggja mörkin samkvæmt stjórnarskrá og öðrum lögum???

Getur lýðræðislegur meirihluti veðsett framtíðartekjur ríkisins langt um fram greiðslugetu þess???  Getur lýðræðislegur meirihluti skuldbundið þjóðina til að greiða skuldir sem hún á ekki að greiða samkvæmt lögum þar um??  Getur lýðræðislegur meirihluti samþykkt ríkisábyrgð án fyrirfram ákveðinnar upphæðar???  Sem sagt getur ríkisábyrgðin verið ótakmörkuð??

Úr athugasemdum við frumvarpinu:

Lánið ber vexti frá 1. janúar 2009, en breski tryggingarsjóðurinn og hollenski Seðlabankinn höfðu greitt innstæður út að mestu fyrir þann tíma. Upphafsdagur vaxta er þó síðar í tilfelli breska lánsins ef útgreiðsla á sér stað síðar.
    Íslenski tryggingarsjóðurinn fær framselda kröfu breska tryggingarsjóðsins og hollenska Seðlabankans í bú Landsbankans. Erlendu aðilarnir munu síðan sjálfir gera kröfu í búið vegna þess sem umfram er og þeir hafa fjármagnað. Í samningunum er sérstakt ákvæði sem áréttar að sjóðirnir muni njóta jafnræðis þegar kemur að úthlutun úr búi Landsbankans, þ.e. fá upp í kröfur sínar í jöfnum hlutföllum, en það er í samræmi við þá túlkun á gjaldþrotalögunum sem almennt hefur verið uppi
.

Hér er atriði sem þarf að rannsaka.  Hvaða almenna túlkun á gjaldþrotalögum er verið að styðjast við.  Ef það er greiðsluskylda, þá er hún uppaf 20.000 evru markinu, og sú krafa á að njóta forgangs samkvæmt tilskipuninni.  Bretar veita rýmri rétt og knýja íslensk stjórnvöld til að samþykkja þennan rýmri rétt til jafns við tryggingarhámarkið.

Má þetta, það þarf dóm um þetta atriði, það þarf að liggja á hreinu hvað er eðlilegt og hvað ber öll merki fjárkúgunar.  Eins er hér dagsetning á vaxtagreiðslunum, engin rök önnur ein einhliða útgreiðsla breska tryggingasjóðsins samkvæmt ákvæðum tryggingar LÍ hjá sjóðnum.

Vanefndarúrræðin, ef þau ganga gegn sjálfstæði ríkisins, má þá semja svona???  Hvað ef allt fer á versta veg????

Vanefndaúrræði samkvæmt samningunum eru hefðbundin. Hins vegar er endurskoðunarákvæði samninganna óvenjulegt. Þar segir að lánveitendur samþykki að endurskoða samningana ef skuldaþol Íslands versnar til muna að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því sem var í nóvember 2008, en nánar verður fjallað um það atriði í 19. kafla athugasemdanna.

Núvirðing og að landsframleiðsla vaxi, er notað til að fegra hugsanlega skuldastöðu. 

Eins og myndin ber með sér er gert ráð fyrir því að þegar fastar greiðslur samkvæmt lánasamningunum hefjast og ábyrgð ríkissjóðs verður virk hafi skuldbindingin sem hlutfall af landsframleiðslu fallið úr tæpum 50% í upphafi niður í 15–26% miðað við að endurgreiðslur úr þrotabúinu verði á bilinu 60–90% af fjárhæð forgangskrafnanna. Lækkun hlutfallsins stafar annars vegar af niðurgreiðslu skuldarinnar með heimtum úr þrotabúi Landsbankans hf. og hins vegar vegna þess að landsframleiðslan hefur vaxið.
    Við samanburð fjárhæðar skuldbindingar ríkissjóðs eins og hún verður 2016 við hagstærðir nú, svo sem landsframleiðslu og skuldastöðu ríkissjóðs, verður að taka tillit til tímamunarins. Verður það gert með því að núvirða greiðslur afborgana og vaxta af lánunum frá og með 2016. Sé það gert með því að nota við núvirðinguna áhættulausa vexti í viðkomandi gjaldmiðlum (ávöxtunarkröfu á breskum og þýskum ríkisskuldabréfum til 7 ára) verður núvirði skuldbindinganna um 373 milljarðar króna, eða um 26% af VLF eins og hún er áætluð 2009. Sé miðað við sömu vikmörk og áður, þ.e. 15% betri eða verri endurheimtur, verða hlutföll skuldarinnar af landsframleiðslu á milli 19,5% til 33%.

 

Sjá rök Jóns Daníelssonar fyrir núvirðingu og hvernig raunveruleikinn afgreiðir svona falskar væntingar á krepputímum.  Hér hefur landsframleiðsla vaxið hægar en ráð var fyrir gert.  Sjá einnig raunveruleg dæmi frá Grikklandi þar sem engar svona áætlanir hafa staðist, stífar greiðslur út úr fjárþröngu hagkerfi draga úr vexti, ekki öfugt eins og sérfræðingar í skuldamálum hafa bent á. 

 

Muna í þessu dæmi slóvensku áhrifin*, þú bregst fyrirfram við slæmu, það slæma verður ekki, þar með gagnályktað, það þurfti ekki að bregðast við.

 

Ef nálgunin er heiðarleg, en ekki til að blekkja, þá reikna menn aðrar sviðsmyndir, til dæmis út frá gríska raunveruleiknaum, það er samdrátt og engin endurfjármögnun í boði.  Og menn svara þá, hvað er hægt að gera.

 

Ef svarið er endalok sjálfstæðis þjóðarinnar, þá er ljóst að um bein landráð er að ræða.

* Um slóvensku áhrifin skrifaði ég í athugasemdarkerfi og alltí lagi að endurtaka hér. 

"Þar sem ég veit að þú ert lesinn maður Guðjón, þá bið ég þig að íhuga aðeins muninn á ástandinu á Slóveníu og Bosníu eftir fall Júgóslavíu.  

Slóvenía varðist árás Serba í upphafi og þar með varð ekki upplausn í landinu.

Bosnía gerði það ekki, þess vegna urðu fjöldamorðin  í Sebrínca.  En það hefðu einnig getað orðið slíkir harmleikir í Slóveníu ef til styrjaldar hefði komið.

Ef Svavarssamningurinn hefði verið samþykktur, þá hefðu bresk stjórnvöld getað í kraft fjármálaeftirlits síns krafið þrotabú LÍ um að selja allar eigur strax, og borga út.  Þetta er engin bábilja, þetta var gert með önnur þrotabú, til dæmis í Skandinavíu.  

Það góða sem við höfum í dag, er afleiðing þess að við stóðumst þrýsting fjárkúgunarinnar."

Ómar Geirsson, 7.2.2013 kl. 08:43

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Síðan er sagt frá skuldastöðunni, SÍ hefur nú þegar viðurkennt að hafa vanmetið hana varðandi þrotabú gömlu bankanna og útstreymi fjármagns úr landi.  Útstreymið hefur bein áhrif á útvegun gjaldeyris sem er til ráðstöfunar við að greiða ICEsave lánið.  SÍ svara hvergi þeim spurningum.   Muna einnig að erlendar krónueignir hlaða á sig vöxtum og vaxtavöxtum innan múra gjaldeyrishaftanna.  Ef ekki er gert ráð fyrir útstreymi þess fjármagns er um fals að ræða.

 

Er raunhæft að reikna ekki með að greiða niður innlendar skuldir???

 

Hvað með skuldir annarra en ríkissjóðs???

 

  Endurgreiðslur vegna lána ríkissjóðs ná hámarki árið 2011, en þá eru tvö erlend lán á gjalddaga að fjárhæð samtals 1300 milljónir evra auk vaxta. Lánin voru tekin til eflingar gjaldeyrisforða Seðlabankans árin 2006 og 2008. Umtalsverður hluti þeirrar endurgreiðslu er varinn með eignum í gjaldeyrisforða Seðlabankans. Engu að síður má reikna með að óhjákvæmilegt verði að endurfjármagna þessi lán að hluta. Auk endurgreiðslu og vaxta af erlendum lánum hvíla miklar innlendar skuldir á ríkissjóði sem greiða þarf vexti af, en ekki er reiknað með að þær verði greiddar niður á þessum tíma.

Nauðsynlegt er að fá tölur í krónutölum, ekki sem % af landsframleiðslu.  Ath ef ekki finnst í frumvarpi.  Og allar endurfjármagnanir geta leitt til vanefnda og þar með gjaldfellingar.  Það er eins og menn hafi ekki lesið lánasamninginn, hvað hann er strangur og einhliða og útilokar hefðbundin bjargráð ríkja í fjárnauð.

Gengisforsendur hafa töluverð áhrif á heildarskuldir, enda stór hluti þeirra í erlendri mynt. Hvað Tryggingarsjóð innstæðueigenda varðar eru eignir sem koma til lækkunar á skuldum sjóðsins einnig að mestu leyti í erlendri mynt. Styrking krónunnar frá því sem nú er mun lækka þá fjárhæð sem út af stendur frá 2016–2023. Styrking krónunnar mun einnig hafa áhrif á aðrar erlendar skuldir til lækkunar, en aðeins þann hluta sem erlendar eignir standa ekki á móti.

Hér er talað um gengisstyrkingu, sem lækkar skuldir, en hvað um gengisveikingu???

Ef ekki er talað um slíka veikingu þá er verið að blekkja.  Stöðug jákvæð sviðsmynd er blekking.  Og það er  blekkingin sem er forsenda landráðakæru.

Og þegar ekki er logið með fölskum tjöldum þess að reikna allt á besta veg, þá er loks logið beint.

 

 Vart þarf að hafa mörg orð um það hvað hefði orðið um lánshæfismat ríkisins ef íslensk stjórnvöld neituðu að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar og semja vegna Icesave- málsins. Fyrir utan þá óvissu sem sá gjörningur hefði valdið þá er ljóst að lánshæfismat ríkisins hefði skaðast verulega enda hefði verið litið svo á að íslensk stjórnvöld væru að hlaupast undan alþjóðlegum skuldbindingum sínum.

Alþjóðleg skuldbinding, fullyrðing án skilyrðingar um vafa.

Rangt.

Ómar Geirsson, 7.2.2013 kl. 08:44

6 Smámynd: Ómar Geirsson

15. Valkostur við þessa samninga.
    Eins og áður hefur verið rakið verður Icesave-deilunni ekki komið fyrir dóm án samþykkis gagnaðila íslenskra stjórnvalda. Ef ekki væri samið um málið væri vissulega ekki hægt að útiloka að á endanum yrði rekið dómsmál þar sem reyndi á túlkunina og að slíku dómsmáli yrði annaðhvort vísað til forúrskurðar EB-dómstólsins eða leitað eftir ráðgefandi áliti EFTA- dómstólsins. Það er hins vegar ekki í valdi íslenska ríkisins að knýja fram slíka málshöfðun, alls óvíst er hvort til hennar kæmi fyrir atbeina einkaaðila og endanlegrar niðurstöðu væri ekki að vænta fyrr en eftir nokkur ár. Dómstólaleiðin svonefnda er því ekki fær.

   Það að gera ekkert er heldur ekki fær leið. Slíkt mundi leiða til algerrar einangrunar Íslands í alþjóðlegum fjármálasamskiptum og fyrir þjóð sem byggir velferð sína á greiðum útflutningsviðskiptum er slíkt einfaldlega ekki valkostur. Þess fyrir utan verður að hafa í huga að Ísland er eitt af nánustu samstarfsríkjum ESB-ríkjanna á grundvelli EES-samningsins. Í aðild Íslands að EES felast bæði rík réttindi og ríkar skyldur. ESB-ríkin hafa mjög skýra afstöðu til þess hverjar skyldur Íslands eru í Icesave-málinu. Virði Ísland að vettugi umræddar skyldur sínar á innri markaði sambandsins er ljóst að þátttaka þess í EES getur verið í uppnámi.

Geta skyldur verið umfram samning??  Og það háð einhliða túlkun gagnaðila án þess að vísa í ákvæði þess samnings sem hafður er til hliðsjónar.  Er þá ekki um nýjan samning að ræða, og þá án samþykkis þings og þjóðar.  Ef þessi ótti við gagnaðgerðir er réttur, og að krafa sé gerð um skyldu umfram samning, og þá með tilvísan í að ESB ríkin hafi mjög skýra afstöðu í ICEsave málinu, og byggja þá afstöðu ekki á lögum og reglum eða gildandi samning, er þá ekki hægt að krefjast hvers sem er.  Aðeins að vísa í þessi rök.  Til dæmis þá væri engin makríl deila eða annað sem okkur greindi á við ESB.  Ekki ef skýr afstaða ESB er talin fullnægjandi rök. 

Svo má spyrja, hver er ávinningur EES samningsins fram yfir EFTA samninginn, og alþjóðlegar reglur um viðskipti???

Þeirri spurningu hlýtur að þurfa að svara ef menn vísa í þennan ótta sem rök í málinu.

Ómar Geirsson, 7.2.2013 kl. 08:45

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Frumvarpið slær á varnagla laga um ríkisábyrgð, það einfaldlega afnemur þá .

17. Eðli ríkisábyrgðarinnar og tenging við lög um ríkisábyrgðir.
    Um veitingu almennra ríkisábyrgða gilda lög nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir. Í lögunum eru sett fram ítarleg skilyrði fyrir veitingu almennra ríkisábyrgða. Ekki er gert sérstaklega ráð fyrir heimildum til ríkisábyrgða af því tagi sem hér um ræðir í lögum nr. 121/1997, enda um almenn lög að ræða. Er því með frumvarpi því sem hér er lagt fram lagt til að ákvæði laga nr. 121/1997, að undanskilinni 5. gr. laganna um eftirlit Ríkisábyrgðasjóðs, gildi ekki varðandi þá ábyrgð sem lögin taka til. Verði frumvarp þetta að lögum munu þau þá sem sérlög ganga framar almennum lögum eins og venja er til samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum.
    Samkvæmt þeim samningum sem vísað er til í 1. gr. frumvarpsins er ríkisábyrgðin vegna lána Tryggingarsjóðs innstæðueigenda þess eðlis að hún verður virk um leið og greiðslufall verður af viðkomandi lánum. Ekki er því gert ráð fyrir samkvæmt samningunum að tæma þurfi öll innheimtuúrræði gagnvart lántaka (Tryggingarsjóði innstæðueigenda), eins og þegar um einfalda ábyrgð er að ræða, áður en ábyrgð ríkissjóðs verður virk. Er því í 1. gr. frumvarpsins lagt til að ríkissjóði sé heimilt að veita „ríkisábyrgð“ í stað þess að talað væri um að heimildin væri til að veita „einfalda ríkisábyrgð“, eins og fordæmi eru fyrir
.

Og loks er það alvarlegasta í ICEsave samningnum, úrræðin ef allt fer á versta veg, með gengið, með viðskiptakjör, með þörfina á endurfjármögnun.  

Forsendur samninganna eru almennt orðaðar, ekkert sem hald er í.  Það skýrir svo vinnu Alþingis sumarið 2009 þar sem reynt var að festa varnagla.  Sem vekur spurningu um landráð í upphaflega samning.  Hvað ef forsendur samningsins standast ekki. 

Dugar þá þetta ákvæði.

Að öðru leyti ræðst það af almennu efnahagsástandi og afkomu ríkissjóðs hvert skuldaþol ríkisins verður að sjö árum liðnum. Tekið er tillit til þessara forsendna íslenska ríkisins í endurskoðunarákvæði samninganna. Það kveður á um að hraki skuldaþoli Íslands verulega frá því sem var í nóvember 2008 skuli aðilar setjast á ný að samningaborði. Íslensk stjórnvöld byggja á því að tekið yrði fullt tillit til aðstæðna Íslands og getu ríkisins til að standa undir skuldbindingum, sbr. umsömdu viðmiðin sem samþykkt voru í Brussel í nóvember 2008. Í öðru lagi er það forsenda af hálfu íslenskra stjórnvalda að bresk og hollensk stjórnvöld muni virða slitameðferð Landsbanka Íslands og stuðla að því að allar eigur búsins lúti samræmdri stjórn þannig að hámarka megi andvirði eigna. Jafnframt virði þau neyðarlögin og ráðstafanir sem gripið hefur verið til á grundvelli þeirra.

Er “tekið fullt tilliti “ nægileg vörn gagnvart aðila sem upphaflega fjárkúgaði þjóðina???

Hvað ef bresk stjórnvöld grípa inní málefni þrotabúsins, bera fyrir sig enn einum ótta við fjármálastöðugleika, neyða þrotabúið í hraksölu???

Þetta er alvarlegasti ágallinn, sérstaklega í ljósi fyrri aðgerða breta.

Að semja svona, og ef lög leyfa það, þá getur stjórnvald hvers tíma afsalað ríkistekjum um ókomna tíð með tilvísun í almennan ótta eða annarlegar kröfur erlendra ríkja.

Ef þetta má samkvæmt íslensku lögum í dag, þá verndar löggjöfin ekki sjálfstæða þjóðarinnar gagnvart geðþótta.

Samkvæmt samningunum er miðað við mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á skuldaþoli Íslands frá 19. nóvember 2008. Mat þetta er hluti af efnahagsáætlun Íslands og aðgengilegt almenningi. Matið kemur til endurskoðunar óski Ísland eftir því (svokallað IV. greinar mat). Leiði það í ljós að skuldaþolinu hafi hrakað til muna frá nóvember 2008 eiga íslensk stjórnvöld kost á að óska formlega eftir viðræðum við lánveitendur um endurskoðun lánaskilmála. Við slíka endurskoðun ber að mati íslenskra stjórnvalda að taka fullt tillit til hinna umsömdu viðmiða sem samþykkt voru í Brussel í nóvember 2008 þar sem vísað var til hinna fordæmalausu aðstæðna Íslands og knýjandi nauðsynjar þess að gera því kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt. Þannig undirstrika íslensk stjórnvöld að reynist ábyrgðin íslenska ríkinu ofviða verði hún endurskoðuð. Eins og fyrr segir eru þó allar líkur á að íslenska ríkið muni geta staðið undir því sem á það fellur.

Undirstrikuðu orðin segja allt um öryggisákvæðin.

Og svara ekki hvað gersist ef illa fer.  Hvað ef bretar og Hollendingar vilja ekki endurskoða.  Röksemd Steingríms í umræðum um þetta atriði var, "hvaða hag hafa þessi ríki á að gera Ísland gjaldþrota?".  Skrýtin spurning í ljósi einnar staðreyndar, þau voru þegar búin að reyna slíkt með kúgunum og hótunum.

Kallast þetta ekki að fyrri spor hræði.

En þá er komið að sjálfum lánasamningnum, þar er allt milliliðalaust, og hann er horror, maður hefði hreinlega ekki trúða þessu fyrr en maður las.  Ég hafði alltaf milliliði, vísaði í annarra orð, las aldrei sjálfan samninginn, einbeitti mér að lagaumræðunni.

En núna þegar ég er búinn að lesa, þá skil ég þetta ekki.  Og ef menn láta þetta óátalið, þá erum við helsjúk.  Ekkert okkar með manndóm.

Og það er ekki Jóhönnu og Steingrími að kenna.

Líta þarf í sinn eigin barm.

Ómar Geirsson, 7.2.2013 kl. 08:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hreyfing lífsins.

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Í upphafi var orðið.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband