Lánasamningurinn um ICEsave.

 

Er útí gegn eitt samfellt brot gegn sjálfstæði og sjálfræði íslensku þjóðarinnar.

Hann er ekki lánasamningur, hann er grímulaus fjárkúgun.  

Fjárkúgun, sem bretar hafa núna fengið dóm á sig um, er sett inní lánasamning og dómsvaldi um þann samning fært í hendur dómsstóla fjárkúgarans.  Öll ákvæði eru svo þröng, að allur vafi í málinu lendir á íslenska ríkið samkvæmt ákvæðum samningsins.  

Hinn breski dómsstóll mun aðeins skoða ákvæði lánasamningsins, og sjá brot Íslands, því allt sem gæti komið uppá, er gert að broti, og vanefnd, enginn sveigjanleiki, ekkert svigrúm, aðeins bein túlkun.  Og íslenska ríkið fær á sig dóm.  

Það er ótrúlegt að þeir sem komu með þennan samning hafi ekki verið fangelsaðir strax á flugvellinum, og væru í dag að afplána þunga dóma.  Því svona gerir maður ekki gegn þjóð sinni. 

 

Eins og í fyrr færslu ætla ég að peista í athugasemdir yfirferð mína yfir lánasamninginn, en á einum stað dró ég saman kjarnann, og ætla að endurbirta hann hér.

 

Til dæmis við greiðsluþrot þarf að semja um kröfur, ríkið greiðir ekki meir en það getur. En það er ekki hægt að knýja á um nauðsamninga. Hvað á það að gera?? Setja þjóðina, íbúana í pant, í veðbönd?? Eða ganga að auðlindum, ríkistekjum, ef illa fer þá er lagalega verið að útiloka nauðvarnir þjóða í greiðsluerfiðleikum.

Þetta er algjört afsal á sjálfræði og sjálfstæði þjóðarinnar og bindur komandi stjórnvöld algjörlega á þann hátt að þau gætu neyðst til að leggja niður íslenska lýðveldið. Og má það með einum einföldum lánasamningi???

Hvað ef bretar hafa aldrei hótað íslenskum stjórnvöldum, aðeins mútað nokkrum stjórnmálamönnum líkt og alþekkt er í þriðja heiminum??? Geta örfáir einstaklingar lagt niður heila þjóð fyrir persónulegan ávinning.

Ef þessi lánasamningur heldur íslensk lög og stenst ákvæði stjórnarskráar, þá er ljóst að svo er. Að geðþótti örfárra getur bundið endi á lýðveldið.

 

Ef illa hefði farið, þá var þjóðin bjargarlaus, og það má ekki.  Vísa á grein mína um ICEsave og humanity.

Og lögin um landráð.


Önnur færsla um ICESave frumvarpið

 

Í þessari færslu ætla ég að taka fyrir greinargerðina með frumvarpinu til að varpa ljós á bæði rangfærslur, hæpin vafaatriði sem og hvað allur málflutningur var samdauna sjónarmiðum breta og ESB. 

Ég tek nokkur atriði hér í megintexta en svo kemur megin yfirferð mín í athugasemdum hér fyrir neðan.  Bæði til að brjóta upp en líka vegna þess að Refurinn minn leyfir illa peist og ég því miklu fljótari að henda þessu inn í athugasemdarkerfið. 

Ég er fyrsta umræðan til að ná utan um öll atriði, bæði get ég bætt inn, og svo gæti alltaf hugsast að fleiri slægjust í hópinn til að ná fram þessu vopni sem fjármálamafían gæti ekki staðist, samanber að eitt leiðir að öðru, og mikilvægasta taktík í stríði er að hafa stjórn á atburðarrásinni en ekki láta andstæðinginn sí og æ stjórna þínum gerðum.  Rökstudd kæra með eftirfylgni myndi alltaf koma leppunum og skreppunum í nauðvörn.

 

Það fyrsta sem mig langar til að hnykkja á er þetta með nauðung, að orð eða samningur við þau skilyrði, binda engan þegar nauðung er aflétt.  Samningaferli ríkisstjórnarinnar var því að fúsum og frjálsum vilja.  Vitna í Björk Thorarensen lagaprófessor.  

 
"Það var ekki um annað að ræða að gangast undir þá þvingun að taka lán, sem rennur að hluta til þess að ábyrgjast greiðslur tryggingasjóðsins, nokkuð sem ríkinu ber engin lagalega skylda til, hvorki eftir Evróputilskipun né öðrum þjóðréttarreglum. Samningar af þessum toga eru á lögfræðimáli kallaðir nauðungarsamningar. Ekki aðeins í okkar lögum heldur einnig í þjóðaréttinum – og slíkir samningar eru raunar ógildanlegir.".

 

Og á þessu er hnykkt hér: "að rétturinn til dómstólameðferðar er varinn af íslensku stjórnarskránni, mannréttindasáttmála Evrópu og raunar gildir hann einnig hjá þeim ríkjum sem við höfum deilt við í málinu" svo ég vitna í grein Sigurðar Líndal og Jón Steinars Gunnlaugssonar í Morgunblaðinu."

Skýrist betur í umfjölluninni að neðan.

 

Annað er þessi klausa hérna úr greinargerðinni.

 

"Þessari skoðun hefur verið haldið skýrt til haga í öllum viðræðum við stjórnvöld viðkomandi ríkja eftir að bankarnir féllu. Þessari lagatúlkun hefur hins vegar verið alfarið hafnað, ekki einungis af þeim ríkjum sem hlut eiga að máli heldur öllum ESB-ríkjunum og Noregi að auki."

 

Mig langar að benda á mjög alvarlega lögfræðilega villu í þessum orðum.  Lagatúlkun er hafnað af öllum málsaðilum en það segir ekkert til um lagarök Íslands eins og Stefán Már prófessor útskýrði reglur ESB.  Það er gert með rökum, lögfræðilegum rökum sem allir vita í dag voru ekki til.  En hér er látið í skína að við hljótum eiginlega að rangt fyrir okkur fyrst við erum ein á báti. 

En hagsmunir geta skýrt afstöðu annarra, og svo fylgispekt smærri ríkja.  

Þetta er eins og viðhorfið til lagatúlkunar í alræðisríkjum eins og Þýskalandi á fjórða áratugnum.  Þá fór túlkun laga ekki eftir því hvað stóð í lögum, heldur hver vilji stjórnvalda var á hverjum tíma.

Og eiginlega er verið að gefa í skyn í greinargerðinni að íslensk stjórnvöld hafi mætt slíku alræði, og það yrði að beygja sig fyrir því.  Ef satt er þá er það grafalvarlegt mál, en ber meir merki ofsóknaræðis.

 

Þriðja er þau gervivísindi að auknar skuldir og skuldbindingar hækki lánshæfimat, dragi að fjárfestingar, auki stöðugleika.  Og skili þar með beinum tekjum í kassann.  

 

 

Það að gera ekkert er heldur ekki fær leið. Slíkt mundi leiða til algerrar einangrunar Íslands í alþjóðlegum fjármálasamskiptum og fyrir þjóð sem byggir velferð sína á greiðum útflutningsviðskiptum er slíkt einfaldlega ekki valkostur. .....
Vart þarf að hafa mörg orð um það hvað hefði orðið um lánshæfismat ríkisins ef íslensk stjórnvöld neituðu að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar og semja vegna Icesave- málsins. Fyrir utan þá óvissu sem sá gjörningur hefði valdið þá er ljóst að lánshæfismat ríkisins hefði skaðast verulega enda hefði verið litið svo á að íslensk stjórnvöld væru að hlaupast undan alþjóðlegum skuldbindingum sínum.
 

Raunveruleikinn var sá að þær þjóðir sem tóku á sig svona skuldbindingar, lækkuðu hratt í lánshæfi, og þær eru í vítahring samdráttar.  Rökin í þessari fullyrðingu er pólitísk, þau eru sama eðlis og rök kaþólsku kirkjunnar gegn útreikningum Galileo.  Orð gegn stærðfræði, orð gegn náttúrulögmálum, orð gegn þekktum afleiðingum of mikillar skuldsetningar.

Og það er ekki þannig að það hafi ekki verið vakið athygli á þessu í umræðunni, og það af þekktum fræðimönnum fyrst allt sem íslenskir varnarmenn þjóðarinnar voru afgreiddir sem heimafræðimenn, þá var ekki hægt að afgreiða hina erlendu á sama hátt.  Enda ekki gert, það var þagað, það var hundsað.  Sem í svona máli er ekki í þágu hagsmuna þjóðarinnar, heldur þess aðila sem fjárkúgaði þjóðina.

En mig langar að vitna í varnaðarorð og hafa það sem endi á þessum pistli, meginmálið kemur svo í athugasemdunum.  Langt, en mun styttra en ævilangur skuldaþrældómur sem bíður okkar ef þessir leppar vogunarsjóðanna verða ekki stöðvaðir áður en þeir ná að framkvæma hinn endanlega skaða.

Þetta er tekið úr frétt Mbl.is frá 06.01 2010.

Fullyrðingar í fjölmiðlum um að Ísland verði útskúfað frá fjármálamörkuðum ef það tekur ekki á sig þessa skuldabyrði eru fjarstæða. Þvert á móti myndi skuldafjallið og skattahækkanirnar sem þær myndu kalla á fæla á brott erlenda fjárfesta.“ Þetta segir Sweder van Wijnbergen, prófessor í hagfræði við Háskólann í Amsterdam, um umræðuna um skuldbindingar Íslendinga vegna Icesave.
Van Wijnbergen þekkir vel til skuldaaðlögunar ríkja í miklum fjárhagserfiðleikum en hann hefur meðal annars starfað að slíkum verkefnum hjá Alþjóðabankanum og fyrir hönd stjórnvalda í Mexíkó, Póllandi, Albaníu og Egyptalandi og víðar, en öll tóku þessi ríki krappar efnahagsdýfur undir lok síðustu aldar. „Skuldir þessara ríkja voru miklu minni. Ég nefni sem dæmi að á sínum tíma var rætt um að Mexíkó gæti ekki staðið undir skuldum sem námu 60% af þjóðarframleiðslu. Mexíkó var þá þróunarland sem Ísland er auðvitað ekki en það blasir engu að síður við að íslenska þjóðin getur ekki staðið undir skuldabyrði sem nemur mörg hundruð prósentum af vergri þjóðarframleiðslu.“.

 

Skuldir hafa alltaf skapað kreppu, ekki hagvöxt, fullyrðingar um annað er klár lygi.

Sem í samhengi við alvarleika málsins, er þátttaka í fjárkúguninni, sem er að vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar, sem er landráð samkvæmt ákvæðum laga þar um.


Fyrsta færsla um ICEsave frumvarpið.

Umsögn um frumvarpið frá fjárlagaskrifstofu.

 

ATh. tilvitnanir í texta eru skáletraðar, mínar hugleiðingar með venjulegu letri.

 

Það er ekki metið hvað gerist við gengishrun krónunnar en endurgreiðslur úr þrotabúinu miðast við gengið sem kröfurnar eru samþykktar, það er 29. apríl 2009. Falli gengið  þá eykst höfuðstólinn sem fellur á ríkið.

 

Til lækkunar kemur betri endurheimtur úr þrotabúi. Í dag er vitað hvað þessar endurheimtur eru góðar, en það var ekki vitað þá. Fyrst að ICEsave kom ekki til greiðslu, þá voru það sameiginlegir hagsmunir íslenskra og breskra stjórnvalda að láta slitastjórn hámarka búið. En það er ekki sjálfgefið. Eftir að Íslendingar höfðu samþykkt ICEsave lánið, þá hefðu bresk stjórnvöld ekki hafta neina slíka hagsmuni, og hvað gerir stjórnvald sem þegar hefur fjárkúgað, beitt hryðjuverkalögum og logið til og blekkt um alla málavexti frá upphafi. Það verður að hafa í huga í þessu sambandi að eignir margra útibúa íslensku bankanna voru seldar þvingaðri sölu á hrakvirði. Rökin var að útrýma óvissu, til þess jú að tryggja fjármálastöðugleika.

 

London er fjármálamarkaður, ef breska fjármálaeftirlitið hefði sagt að það mætti ekki draga svona að gera upp þrotabúið, það vekti efasemdir um styrk breska fjármálamarkaðarins, hvað þá??? Í þessu samhengi verða menn að hafa í huga að ákvarðanir móta framvinduna, og það er ekkert sem segir að önnur ákvörðun hefði getað haft í för með sér aðra framvindu. Og það er enginn varnagli sleginn gagnvart annarri framvindu, það eina sem tekið er fram að ef eitthvað kemur upp, þá mega íslensk stjórnvöld ekki lögsækja breta fyrr en þau hafa greitt upp allt lánið, annað er vanefnd.

 

Að segja að þetta hafi ekki getað gerst er eins og þegar anstæðingar öryggisbelta, nota það sem rök fyrir að það hafi aldrei þurft að þvinga fram notkun beltanna, því nýjustu tölur sína að umferðaslys eru svo fá miðað við hvað var fyrir lögleiðingu beltanna, að þvingun þar um hefði verið óþörf. Eða þú þurftir aldrei að kaupa öryggiskerfið því það hafi aldrei verið brotist inn hjá þér eftir að þú settir það upp. Eða svo ég orði almennt, að sá sem berst gegn vörn, notar síðan árangur varnarinnar sem rök fyrir því að það hafi aldrei þurft að verjast.

En hér er umsögnin. Upphæðirnar eru æpandi.

 

 

Með frumvarpi þessu er leitað eftir heimild Alþingis til að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ábyrgð á láni sjóðsins frá breska og hollenska ríkinu. Lánið er til að standa straum af endurgreiðslu til hinna erlendu ríkja á því fé sem þau hafa lagt fram til að greiða innstæðueigendum hjá útibúum Landsbankans hf. í Bretlandi og Hollandi þá lágmarkstryggingu, 20.887 evrur, sem kveðið er á um í lögum nr. 98/1999. Tryggingarsjóður innstæðueiganda og fjárfesta var stofnaður á grundvelli laganna þegar tilskipanir 94/19/EB um innlánstryggingar og 97/7/EB um tryggingakerfi fyrir fjárfesta voru innleiddar á Íslandi á grundvelli EES-samningsins. Samkvæmt samningum við Breta og Hollendinga ábyrgist ríkissjóður greiðslur samkvæmt lánasamningum Tryggingarsjóðs eftir 2016 sem eru umfram það fé sem sjóðurinn á í vændum sem handhafi forgangskrafna í þrotabú Landsbankans hf.
Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpinu er mikil óvissa um áhrif samninganna á útgjöld ríkissjóðs eftir 2016. Heildarskuldbindingin samkvæmt samningunum er um 705 milljarðar kr. miðað við núverandi gengi krónunnar, sem er um 49% af vergri landsframleiðslu (VLF) árið 2009. Fram til 2016 munu eignir úr þrotabúi Landsbankans greiðast inn á höfuðstól lánsins og ræðst það af greiðslum úr þrotabúinu hversu hátt lán Tryggingarsjóðsins verður. Í athugasemdunum eru reiknuð út áhrifin á höfuðstól lánsins miðað við forsendur um að 60–90% af forgangskröfum endurheimtist.
Miðað við 60% endurheimtur krafna yrði skuldbindingin 521 milljarður kr. eða 26% af VLF 2016 og 309 milljarðar kr. eða 15% af VLF miðað við 90% endurheimtur á forgangskröfum. Ef gert ráð fyrir að meðaltal þessara forsendna um endurheimtur forgangskröfuhafa komi til eða að 75% af kröfum endurheimtist gætu um 415 milljarðar kr. fallið á ríkissjóð vegna skuldbindinga Tryggingarsjóðsins eða um 21% af VLF árið 2016. Þessi fjárhæð kæmi til greiðslu í 32 greiðslum á átta árum ásamt árlegum 5,55% vöxtum.
Árleg greiðsla af höfuðstól yrði þannig um 50 milljarðar kr. og vaxtagreiðslur fallandi frá 22 milljörðum kr. Þar sem greiðslutímabil fastra afborgana hefst 5. júní 2016 falla tvær afborganir á það ár og á árið 2024 en fjórar afborganir á önnur ár.
 
 

Miðað við þessar forsendur gætu stærðargráður á þessum greiðslum orðið eftirfarandi: (Hér kemur tafla sem birtist í athugasemdum.)

Verði endurheimtur forgangskrafna 75% eins og gert er ráð fyrir í þessu dæmi munu greiðslur vegna Icesave verða um 3,7% af VLF árið 2016 en verða komnar niður í 2,7% af VLF árið 2023.

Þrátt fyrir að hér hafi verið reynt að leggja mat á hugsanleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs á komandi árum er óvissan í þessum samningum veruleg. Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir miðað við þær forsendur sem að framan eru raktar að greiðslur úr ríkissjóði gætu orðið á bilinu 60–70 milljarðar kr. árlega á árabilinu 2017 til 2023, en helmingur þeirrar upphæðar árin 2016 og 2024. Vakin er athygli á því að lánið er fært hjá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og greiðir sjóðurinn afborganir og vexti af því. Komi til þess að á ríkisábyrgðina reyni færast árlegar greiðslur úr ríkissjóði sem svara til afborgana og vaxta til Tryggingarsjóðsins í einu lagi og til gjalda á útgjaldahlið ríkissjóðs.

 

Sjá svo töfluna hér að neðan í athugasemdum.

Þessar tölur eru skuggalegar, tölur sem reynt er að þagga niður í umræðu dagsins.


Er fyrsti ICESave samningurinn landráð??

 
En síðan varðar öll framganga hennar í málinu við þau ákvæði hegningarlaga sem taka á óeðlilegri samvinnu við erlend ríki eða erlent vald og kennt er við landráðakafla hegningarlaganna. Slíkt lætur sjálfstætt ríki aldrei líðast og núna þegar allar réttlætingar stjórnvalda eru fallnar um sjálft sig, þá verða ráðaherrar í ríkisstjórn Íslands að sæta ábyrgð. Að það sé réttað yfir þeim samkvæmt íslenskum lögum um hinn meinta glæp sem blasir við að þeir hafa framið.
Við erum að tala um samning þar sem dómsvaldi var útvistað, erlend ríki fengu yfirstjórn fjármála ríkisins, og þjóðin var skuldbundin til að greiða í beinhörðum gjaldeyri upphæðir sem engin sjálfstæð þjóð getur staðið undir. Til að kóróna landráðin voru eigur íslensku þjóðarinnar lagðar að veði, og í skuldabréfinu var gjaldfellingarákvæði sem komu til framkvæmdar ef einn gjalddagi á einu skuldabréfi ríkisins, eða ríkisfyrirtækja, fór fram yfir eindaga. Þetta er fyrsta samkomulagið sem ríkisstjórn Íslands samþykkti án þess að hafa hugmynd um kvað hún var að skrifa undir.
 

Þetta er tekið úr einni blogggrein Kveðju að austan., Lýðræðinu ógnað.

Lagagreinin um landráð hljóðar svo.

"86. gr. Hver, sem sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð, eða að ráða annars einhvern hluta ríkisins undan forræði þess, skal sæta fangelsi ekki skemur en 4 ár eða ævilangt.
87. gr. Geri maður samband við stjórn erlends ríkis til þess að stofna til fjandsamlegra tiltækja eða ófriðar við íslenska ríkið eða bandamenn þess, án þess að verknaðurinn varði við 86. gr., þá varðar það fangelsi ekki skemur en 2 ár eða ævilangt. Sé þetta í því skyni gert að koma erlendu ríki til þess að skerða sjálfsákvörðunarrétt íslenska ríkisins á annan hátt, þá varðar það fangelsi allt að 8 árum.".
 

Lýsingar þingmanna og ráðherra VG benda til þess að þingmönnum hafi verið hótað, þjóðinni var hótað ýmsum kárínum og markmiðið var að ráða hluta af íslenska ríkinu, það er þann hluta sem snýr að tekjum, undir erlend yfiráð eða forræði.  

Svik voru einnig viðhöfð í málinu, þjóðinni var ekki sagt satt um forsendur hans, blekkingum var beitt til að fegra innihald hans, þjóðinni var aldrei sagt satt.  Og samningurinn sannarlega skerti sjálfsákvörðunarrétt íslenska ríkisins.

 

ICEsave krafa breta var sett fram með fjandsamlegum hætti strax í upphafi, íslenskir ráðamenn bera vitni um að þeim hafi verið stillt upp við vegg, þeir hafi samið fyrst nauðugir.  Slíkt varðar ekki við lög um landráð, takist þeim að sýna fram á viðkomandi nauðung.  Líklegast mun málsvörn þeirra byggjast á því atriði.     

Og persónulega tel ég að það sé gild málsvörn fyrir það ferli sem fór í gang strax eftir Hrun.  Menn voru í nauðvörn, og töldu sig nauðbeygða til ganga til samninga til að aflétta viðskiptaþvingun breta og ESG, en allur gjaldeyriri til landsins hafði stöðvast.  

Þess vegna tel ég að það sé engin flötur á ákæru á hendur ríkisstjórn Geirs Harde í þessu máli, það væri svipuð misnotkun á lögum eins og Landsdómsákæran var á sínum tíma.

 

En síðan fór af stað ferli sem ekki er hægt að verja.

Í fyrsta lagi er það skýrt í þjóðarrétti að samningur sem náð er fram með þvingunum, er ekki bindandi og er kæranlegur til alþjóðlegra stofnana.  Sameinuðu þjóðirnar er vettvangur til að ræða slíka nauðung, Alþjóðadómsstóllinn í Hag er annar.  Ísland er aðili að Nató, og þar er þriðji vettvangurinn til að kvarta og krefjast aðgerða. 

Ef lýsingar ráðamanna eru réttar, þá átti að gera það.

Þetta var ekki gert, heldur var haldið á braut samninga.  Líkt og nauðung væri bindandi.  

Fyrir því getur verið ástæður, en þá verður allt ferlið að vera hafið yfir vafa.  

 

-  Á öllum stigum málsins þarf að ítreka að íslensk stjórnvöld séu óviljug, þau leiti allra leiða til að aflétta hinni meintu nauðung og svo framvegis.  Í þessu samhengi má ekki gleyma að nauðung varðar við alþjóðleg lög og krefst aðgerða af hálfu Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.  Og svo erum við í Nató, svo það sé ítrekað einu sinni enn.

- Á öllum stigum málsins þarf að segja þjóðinni satt um það sem er að gera, upplýsa um samningsdrög, afhverju og hvers vegna.  Þetta er mjög mikilvægt því það eru jú lög í landinu sem banna svona samvinnu, og á slíkt er aðeins gert á neyðar og nauðungartímum.  Þetta gerði til dæmis danska ríkisstjórnin fyrst eftir hernám Þjóðverja, til að viðhalda stöðugleika í landinu og láta hernámið ekki valda meiri truflun á daglegu lífi en hægt var að hindra.  Þegar danska stjórnin gat ekki verið heil, ekki sagt þjóðinni satt, þá vék hún.  Óeðlilegt samband við hernámsvaldið kom aldrei til greina, það var svik við þjóðina.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir að hin meinta nauðung sem ætluð var í ICEsave var ígildi  hernáms, íslenska stjórnvaldið átti að vera óviljugt að semja til að hindra annað og meira tjón.  Það réði sér ekki sjálft, það var ekki að semja á jafnréttisgrunni.

- Þegar búið er að semja, þarf að upplýsa þjóðina um allt sem stendur í honum, meintan kostnað, og þá tekið tilliti til allra frávika, líka þeirra sem eru ólíkleg.  Hrunið 2008 varð vegna þess að það sem átti ekki að geta gerst, gerðist.  Og þá þarf liggja skýrt fyrir um hugsanleg viðbrögð, þar sem fjárhagslegt sjálfstæði og sjálfræði þjóðarinnar er tryggt.  Þetta er lykilatriði, nauðung eða þrýstingur getur aldrei verið það mikill að menn fórni sjálfstæði þjóðarinnar fyrir slíkt.  Hið erlenda vald hlýtur alltaf að þurfa að beita valdi til að skerða sjálfstæði þjóðarinnar.

-Og gegn þessum kostnaði þarf að útskýra vel hinn meinta kostnað sem fellur á þjóðina með staðreyndum sem standast raunveruleikann, eru ekki svipuð eðlis og þegar kaþólska kirkjan notaði guðfræðileg rök gegn útreikningum Galieo um að jörðin væri hnöttótt.  Pólitísk rök eru kirkjuleg rök nútímans og eru ekki boðleg gegn beinhörðum útreikning gegn tölum.  Eins á að útskýra vel aðrar þvinganir, hvers eðlis þær eru og hvernig þær standast alþjóðleg lög og alþjóðlega samninga, eins og EES samningin, lög og reglur Evrópusambandsins og svo framvegis.

 

Ekkert af þessum skilyrðum er uppfyllt í samningaferlinu, ekkert.

Þar sem virðist vera reynt að segja satt, er aðeins fallegar umbúðir um blekkingu.  Til dæmis þegar kostnaður er metinn þá eru gefnar forsendur sem byggjast á óskhyggju um meintan hagvöxt og í útreikningum er gert ráð fyrir gengisstöðugleika.  Sem er broslegt þegar ekki er einu sinni til peningur til að borga LÍ bréfið á réttum tíma.  En endurfjármögnun á því bréfi gat leitt til vanefndar og riftunar samnings.

En meir um það síðar.

 

Eftir stendur því samningaferli sem byggðist á pólitískum markmiðum, ekki nauðung, og þá þarf það ferli að halda lög, það er lög sem varða við landráð.  

Mitt mat er að það hafi ekki tekist.  

 

Þegar ég fór yfir frumvarpið og greinargerðina þá punktaði ég hjá mér helstu vafaatriðin og rökvillurnar.  Og þegar lánasamningurinn var skoðaður, þá var punktað niður helstu atriðin sem eru bein landráð, án alls vafa, svo svakalegur var þessi gjörningur.  

Ég ætla að henda inn þessum punktum hráum, læt allar hugleiðingarnar fljóta, til glöggvunar og umræðu, þá og þegar Hreyfing lífsins sendir frá sér ályktun um að Lög eigi að gilda í landinu.

Síðan er hugmyndin, um leið og forsendur eru til, að senda inn beina kæru.  Slíkt krefst lögfræðilegrar aðstoðar, og vissra fjármuna þar sem höfuðstöðvar Hreyfingar lífsins eru mjög fjarri hringiðu samfélagsins. 

Munum að það þarf ekki marga að lyfta þessu grettistaki, það þarf aðeins góðmenni og einbeittan vilja.  

 

En þetta grettistak, er Grettistak lífsins því það hóf gangsókn mannsins gegn ómennskunni.

Meir um það seinna.

 

Færslurnar verða nokkrar, svo verður heilsan vonandi betri til að koma saman grunnpistlum um málið. 

Lög gilda í landinu.

Það verður ekki hætt í þessu máli fyrr en það er unnið.

 
 

ICEsave og humanity.

 

ICEsave í sinni tærustu mynd snýst um hvað má gera öðru fólki.  

Má allt ef þú passar þig aðeins að tengja það við smáletur skuldabréfs.

 

Mennskan hefur þurft að takast á við þessar spurningar áður.

Það urðu kaflaskipti í baráttunni gegn þrælaverslun þegar eigendur þrælaskipsins Zong sóttu tryggingafé fyrir þræla sem var kastað útbyrðis vegna matarskorts.  Farmurinn rýrnaði og þeir vildu fá það bætt. 

Þá stöldruðu margir við og spurðu, má gera lifandi fólki þetta???  Getur það aðeins verið vara, kostnaður, án nokkurs réttar???

Svipaðar spurningar voru spurðar í frægum réttarhöldum sem myndin Amistad þegar eigendur strokuþræla kröfðust þess að bandaríks yfirvöld afhentu þá réttmætum eigendum.  Þá byggðist vörnin að þetta hefði verið frjálst fólk, sem hefði verið svipt frelsi sínum

Og hún var tekin til greina, sumt mátti ekki.

 

Eftir hrylling síðustu heimsstyrjaldar var þetta sumt áréttað, í mannréttindasáttmálum var helgi manneskjunnar tryggð, og hún naut ákveðinna réttinda, mannréttinda.  

Sérstaklega hafa þessi mannréttindi verið vel útfærð í mannréttindaskrá Evrópu, fólk hefur ekki aðeins rétt til lífs, og vera ekki selt eða pyntað, það hefur líka rétt á lágmarks framfærslu, rétt á heilsugæslu, menntun, og það nýtur ákveðinna félagslegra réttinda.  

Í raun er um samfélagssáttmála að ræða sem réttlætir hlutfallslega mikla skattheimtu í Evrópusambandinu.

 

En hvernig rímar það við að í þessum sömu löndum svelti stórir þjóðfélagshópar, að sum lönd séu orðin neyðarsvæði þar sem allir innviðir eru að grotna niður???

Ekki vegna náttúruhamfara, ekki vegna styrjalda, ekki vegna hungursneyðar, heldur vegna gjaldmiðils, og vegna þess að kostnaði við að verja hann er velt yfir á þegnana.

Eins eru óheyrilegar upphæðir teknar úr almannasjóðum til að borga fyrir fjárglæfra spákaupmanna fjármálakerfisins.  

Almenningur borgar sama skattinn, en fær ekki lengur þá þjónustu sem hann taldi sig vera að borga fyrir, því fjármálakerfið er framar í forgangsröð stjórnvalda.  

Og með þeim afleiðingum að fólk er víða við hungurmörk, tekjur þess duga ekki til framfærslu.

 

Hvar er mannhelgin í þessu dæmi??

Er gömul ómennska að stinga upp kollinum??

Er hætt að líta á fólk sem fólk, er það aftur orðið að kredit lið í bókhaldi siðblindingja eins og þrælakaupmanna forðum???

 

Vissulega er ennþá djúp gjá þarna á milli, en það er óðum verið að brúa hana.  

ICESave fjárkúgun breta var slík brú.  

Rifjum upp hvað ICEsave snérist um í raun. 

Martin Wolf, dálkahöfundur dagblaðsins Financial Times. "Þetta snýst um að neyða saklaust fólk til að taka á sig gríðarlegar skuldbindingar sem því ber hvorki lagaleg né siðferðisleg skylda til að gera."

 

Og ICEsave réttarhöldin áttu að snúast um, en gerðu ekki.

 

"Héðan af er aðeins ein lausn á þessari deilu og hún er sú að dómtaka málið og fá réttarhöld aldarinnar, um hvað má gera þjóðum og hvað má ekki. Þessi réttarhöld aldarinnar munu snúast um sjálfan tilverurétt þjóðríkja og um sjálf grunnréttindi manneskjunnar, að hún geti byggt upp sitt líf og tilveru án þess að eiga á hættu að allt í einu komi innheimtumaður og tekur eigur hennar með þeim orðum að hún hafi verið í ábyrgð fyrir banka í fjarlægu landi. Ábyrgð sem manneskjan var aldrei spurð um, og hafði aldrei neitt um að segja.".
Samt var hinn venjulegi maður aldrei spurður þegar hann var settur í þessa ábyrgð, og gat ekki haft nokkrar forsendur til að vita það því þeir sem með völdin fóru, vissu það ekki heldur. Samt átti að innheimta þetta ef illa færi, og er verið að innheimta núna á neyðarsvæðum Evrópu. Og enginn spyr, hvaða réttur býr þar að baki?? .... Núna þegar dómur er fallinn, þá var sigurinn unnin á lagatæknilegum atriðum, lögin gerðu ekki ráð fyrir slíkri ábyrgð, sem var augljóst mál. En dómurinn tók ekki á dýpri rökum málsins, að undir engum kringumstæðum mætti gera saklaust fólk ábyrgt fyrir gjörðum annarra.".
 

Þetta er nefnilega grundvallaratriði, hvað má gera öðrum.

Og ef það má gera þetta einni þjóð, hvenær kemur þá að næstu???  Og svo næstu.

 

Uppgangur alræðisins á fjórða áratug síðustu aldar var vegna þess að samfélag þjóðanna heyktist á að svara þessari spurningu, með þekktum afleiðingum.

Samt var varað við og mig langar að endurtaka fræga aðvörun sem ég hef áður minnst á í bloggpistlum mínum um ICEsave.

 

En orð Haile Selassies hljómuðu lengi í hugum fulltrúanna á þingi þjóðabandalagsins. Hann sagði að það sem væri einkum í húfi væri siðgæði í samskiptum þjóða, traust allra þjóða á hvers konar samningum og mati þjóða, einkum smáþjóða, á gildi loforða um að tilvera og sjálfstæði yrði virt og tryggt. “Í þetta sinn vorum það við” sagði hann. “Næst kemur röðin að ykkur.
 

"Næst kemur röðin að ykkur".  Það leiðir nefnilega eitt að öðru.  

Það er þannig að þegar siðmenningin byrjar að láta undan, að þá er það fyrst eins og sprunga í stífluvegg, það seytlar, en síðan springur allt.  Og ekkert verður við ráðið.

 

Forsendur ICEsave voru og eru rangar, sumt má ekki.

Á því tók dómurinn ekki, hann féll með þjóðinni á lagatæknilegum atriðum.

Ekki siðferðislegum.  

Og á meðan er alltaf von á nýjum ICEsave klyfjum í einni eða annarri mynd.

 

Öflin sem stóðu að baki ICEsave eru ennþá að, hér á Íslandi, og í Evrópu.

ICEsave dómurinn kenndi þeim aðeins að vanda betur til lagasetningar, ekki að sumt mætti ekki.

Og á meðan þetta fólk gengur laust, og kemst upp með siðblindu sína, þá er ferlið, eitt leiðir að öðru í fullum gangi.

Þess vegna er svo mikilvægt fyrir mennskuna að það sé snúist gegn þessu liði, að lögin, á meðan þau eru ennþá okkar, séu virkjuð gegn athæfi þeirra.  

 

Fyrsta skrefið er að kæra forsprakka ICESave fjárkúgunarinnar á Íslandi, þau Jóhönnu og Steingrím.

Þau brutu sannarlega lög, og eiga ekki að komast upp með það.

 

Um það fjallar næsti pistill.

 


ICEsave dómurinn gaf andstöðunni von.

 

Von sem verður að nýta ef hún ætlar að standa undir nafni.

 

Það er sótt að þjóðinni á öllum vígstöðvum í dag.  

Heimilin hafa verið rænd, atvinnulífið er fjárvana vegna ofurskuldsetningar, vogunarsjóðir voma yfir.  

Að ekki sé minnst á innlimun landsins í ESB.

 

Verkfærið sem níðist á þjóðinni, ríkisstjórnin með bakstuðning Alþingis, varð á, það braut lög í ICEsave.  ICEsave dómurinn er eins og glufa á þykkum virkismúr, glufa sem hægt er að sækja í gegnum.  Að beina kröftum að öðru í dag, er ekki einu sinni heimskt, það er eins og vitið sem býr að baki Bjartri Framtíð, það er tómið.  Það sem ekki er.  Það gerir jafnvel kalkúnann sem nærist ekki þó fæðan sé alltum kring, að gáfaðir lífveru.  

Því ákæra um landráð á hendur Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími Joð Sigfússyni  hrekur ríkisstjórnina í vörn, og ekki hvað síst, þá mun ákæra á hendur þeim lama áróðursvélina sem mótar almenningsálitið í dag. 

Því eitt leiðir að öðru.

 

En þetta hefur verið orðað áður, og gott að vitna í þau orð.  Það er hægt að skrifa heila ritgerð um þetta, en heildarmyndin ætti að vera skýr.

"Það versta er að þetta er aðeins byrjun á löngu stríði. Þjóðin hefur verið seld öðru sinni, og verður seld þriðja sinni, ef fólk einblínir alltaf á þann anga sem ógnarvaldið beitir fyrir sig í það og það skipti. Sala á framtíð barna okkar verður ekki stöðvuð fyrr en fólk ræðst að kjarna þess valds sem að baki liggur, ógnarvaldinu eða óvininum eina eins og ég kalla hann. ".

 

Og það þarf að stöðva það sem er að gerast.  

"Það er engin parnoia að vitna í lög um landráð, þegar ákveðið athæfi varðar við þau. Þessi lög voru ekki sett vegna móðusýki heldur eru þau frumforsenda sjálfstæði þjóða í heimi þar sem ráðist er sí og æ á hinn veikari.

Bretar vita nákvæmlega til hvers svona lög eru sett og þeir framfylgja þeim af fyllstu hörku gagnvart sínum eigin þegnum. Og þeir vita nákvæmlega hvað undirróður er sterkt vopn til að ná fram markmiðum sínum í deilun og drottnun. Hjá þeim er þetta listgrein þar sem ákveðnar stjórnarstofnanir einbeita sér eingöngu að slíkri starfsemi. Sama gildir hjá öðrum ríkjum sem reka árásargjarna utanríkisstefnu.

Smáþjóðir eru algjörlega varnarlausar gagnvart þessu ef þær bregðast ekki við af fyllstu hörku. Sigur okkar í ICEsave er lítils virði ef við heykjumst á að láta stuðningsmenn bresku fjárkúgunarinnar sæta ábyrgð. Þá halda þeir bara áfram.

Og hvað eru þeir að gera í dag??

Jú, þeir grafa undan stoðum sjálfs lýðveldisins með árásum sínum á stjórnarskrána. Og standa fyrir stanslausum undirróðri í þjóðfélaginu þar sem sótt er að öllu, kirkjunni, biskupinn var hrakinn úr embætti, árásir á dómskerfið, stöðug sprengju og upplausnar mál í ríkisfjölmiðlum sem ýta undir æsing og skrílræði.

Þetta er engin tilviljun, þetta er klassískt skólabókardæmi um hvernig á að brjóta sjálfstæði þjóðar á bak aftur. Og þú sem andstæðingur fjárkúgunar breta og andstæðingur innlimunar landsins í ESB ættir að skilja að það þarf að verjast þessu fólki. Ekki bara slá á puttana og leyfa því svo að halda áfram. Það þarf að mæta því með því eina vopni sem við almúginn höfum, með lögum landsins. Krefjast þess að það gildi lög í landinu, og sjá til þess að svo sé."

 

Það sem er að gerast á Íslandi í dag á sér beina sögulega samsvörun í skjalfest dæmi um undirróður CIA í Chile til að grafa undan stjórn fyrsta vinstri mannsins sem var kosinn í lýðræðislegum kosningu.  Þá hugnaðist erlendu valdi ekki sú niðurstaða og á undraskömmum tíma þá lamaðist þjóðlífið vegna verkfalla, stöðugra deilna og ádeilna á hinu nýju stjórn sem vart hafði náðst ráðrúm til að gera neitt af sér, hvorki til góðs eða ills.  

Og svo greip herinn inní og myrti lýðræðið.  En það var endapunktur ferlis sem byrjaði með skipulögðum undirróðri erlends valds.

 

Og aðeins lengra aftur í tímann má sjá nákvæmlega sömu vinnubrögð þegar Þjóðverjar lögðu undir sig Austurríki og Tékkóslóvakíu án þess að hleypa af einu einasta skoti.

Þeim dugði hugmyndafræðilegir bandamenn, skipulagður undirróður, og afskiptaleysi fjöldans sem hélt að lífið væri næsta útsala.

Að sjá ekki það sem er að gerast er eins og að sjá ekki tilgang raðnauðgara sem býður konu á förnum vegi upp í bíl sinn.

 

Þess vegna þarf að mæta þessu og valdið gaf á sér höggstað með lögleysu sinni í ICEsave.  

En áður en fjallað er um lögin sem brotin voru, og hvað í ICEsave samningi ríkisstjórnarinnar braut þau lög, þá verður fyrst fjallað um hina raunverulegu alvöru málsins.

Að ICEsave var aðför að siðmenningunni.

 

Það var reynt sem má ekki.

 


"Það verður sem verður".

 

Mælti ein af  Valkyrjum Vallarins þegar hún greindi stöðuna í stríðinu mikla gegn óvininum eina.  

Það er ekki að myndast afl, það er ekkert að gerast.  

Samstaðan um lífið hefur ekki náð sér á flug.

 

Og það verður að játast að Hreyfing lífsins hefur ekki gert það heldur.

Pistlaröðin sem hófst með Það krefst hugrekki að sýna rétta breytni og endaði með Á stund sannleikans gerir fólk það sem þarf að gera, skilaði engu, máttur orðsins sem Kveðja að austan tjáir, er enginn.  Eða eins og sagt var í athugasemdarkerfinu:  Það er ekki mikil kúnst að skrifa orð sem aðrir lesa, aðallega æfing. En að skrifa orð sem aðrir skilja er ekki öllum gefið. Og mér hefur ekki ennþá verið gefin sú gjöf.

Það myndaðist enginn slagkraftur hér til að halda út í stríð við ófétin.

Verður reyndar að játast að það hefði komið mjög á óvart ef svo hefði verið.  

 

Hinsvegar kom það á óvart að enginn í hópi fólksins sem þykist vera á móti, skyldi sjá tækifærið sem ICEsave dómurinn færði okkur í Andófinu upp í hendur.  

Ógnarvaldinu sem skuldaþrælkar almenning í dag, og er rétt að byrja, því varð á, það gleymdi að breyta lögum áður en það fór sínu fram.  Og er í dag sekt um lögbrot sem það getur ekki svarið af sér.  Í stað þess að sækja að þjóðinni, þá þarf það að verjast.

En það sækir enginn að því.  Og Hreyfing lífsins verður að játa, að það kom á óvart.

En það er í takt við annað sem skýrir að flokkur ESB neyðarinnar er næst stærsti flokkur landsins, en þeir sem þykjast vera á móti, mælast varla í prómillum.  

Þeim er margt gefið, til dæmis að vera á móti, en ekki gefið að að vera ógn sem valdið þarf að óttast.

 

Reyndar kom það heldur ekki á óvart.

En það kom Hreyfingu lífsins á óvart, að skuldaþrællin skyldi ekki grípa gæsina og lemja á þeim sem hafa pínt hann og þrælkað.  

Það kom á óvart.  

Gluggi Hreyfingar lífsins að umræðunni, Kveðja að austan, fékk lestur, mikinn lestur, en engar undirtektir.  Og það þjónar engum tilgagni að hamra kalt járn.

 

Það breytir ekki hinu að eftir stund sannleikans, þarf að segja satt, og meiningin er að fjalla um hér á þessari síðu af hverju ICEsave er glæpur gegn mennskunni, og af hverju það er landráð.

Meiningin var að álykta um hin meintu landráð, en það þjónar engum tilgangi, það er aðeins sóun á orku að eyða kröftum í það á degi þar sem kvef og skítur herjar á tenginguna við netheima.  

Hugsunin verður aðeins orðuð, rökin flutt hrá.

Það er ekki sá kraftur til staðar sem þarf til að hægt sé að ákæra ofsækjendur þjóðarinnar.   Ekki í dag, ekki á morgun, en hann er til staðar í samfélaginu, hann er aðeins hulinn í iðrum jarðar líkt og glóandi hraun sem bíður eftir glufu að brjótast út upp á yfirborðið.  

 

Spádómur  þess sem yrði var  orðaður í Örlagadómnum.

 

Dómur sem sýknar íslensk stjórnvöld af kröfu ESA er því örlagadómur fyrir marga landa okkar, þó íslenska þjóðin fagni slíkum dómi. Það er ljóst að eitthvað af hinum nýju framboðum mun kæra hina seku þingmenn, hina seku ráðherra, hina seku elítu, og öll þau handbendi sem bretar notuðu við að fá fjárkúgun sína samþykkta.

Samtökin Já Ísland munu leysast upp, hætt verður við aðildarumsóknina að ESB, ekki nema menn ætli að halda áfram aðlögunarferlinu úr fangaklefum Litla Hrauns, skipta þarf um forystu hjá Samtökum Atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu, hjá Alþýðusambandinu auk þess sem Samfylkingin og VinstriGrænir hljóta að verða lögð niður. Ekkert nýtt stjórnmálaafl mun láta slíkt tækifæri sér úr greipum renna. Það verða allir að lúta landslögum, líka þeir sem völdin hafa.

 

Fyrir utan vilja til að láta þessa Sýn rætast, þá þarf aðeins meir fjölmenni en fámenni,  það þarf líka það hugarfar sem kom inná athugarsemdarkerfi Kveðju frá austan.

 

"sæll Ómar sem íslenskur rikisborgari getur þu ekki akaert thetta lid til saka fyrir landrad? ef svo er mun eg gladur hjalpa vid fjarmognu tho svo ad eg geti eki gefid mikid Magnús Ágústsson, 28.1.2013 kl. 17:38 ;".

 

Það þarf að hafa vilja til að láta hlutina gerast.  

Þar er hnífurinn í kúnni, og enginn ætlar að draga hann út.  Að því er best er vitað.

 

En við hjá Hreyfingu lífsins ætlum að fjalla um af hverju, hvers vegna og svo framvegis.  

Undir kjörorðinu, hrátt, gróft en segir það sem segja þarf.

 

Og það sem segja þarf verður sagt í nokkrum pistlum, sökum lengdar.

Á meðan, 

Megi orðið lifa.

 

 

 

 

 

 


Verkefnalisti næstu daga.

 

Í það fyrsta er að láta þessu síðu halda um Hreyfingu lífsins.  Hér verður hent inn örpistlum, orðpistlum, stríðspistlum, öllum pistlum sem líðandi stund krefst.  Það mun skýrast og fókusast í næstu viku, og ræðst dálítið af því að í mörg horn þarf að líta og mörgu að sinna.

Annað er að leggja af stað með ferli þar sem þeir sem ábyrgðina bera á ICEsave fjárkúguninni eru látnir sæta ábyrgð gjörða sinna.

Ásamt þeim sem lugu og blekktu allan tímann.

 

Annað er að móta næstu skref fyrir Hreyfingu lífsins.

Hún býr við þá miklu dýnamík að eiga auðvelt með að marfaldast eins og aðrar hreyfingar sem eru góðmennar en ekki fjölmennar.  Þó er þegar margir að handan sem mæta á fundi og hvetja hreyfingarlimi til dáða.  Þeir sem hafa alið líf og séð það vaxa og dafna í gegnum tíma og rúm, þeir vita að þetta líf þarf að vernda, að sakleysið eigi alltaf að fá rúm til að þroskast og geta í fyllingu tímans af sér nýtt líf.  Þeir skilja þörfina á uppgjöri mannsins við villimennskuna.

Næstu skref mótast dulítið af þeim fjölda sem stígur fram og býður krafta sína.

Í Hreyfingu lífsins er aðeins fólk sem hefur svarað spurningunni einu, Hver er ég.  Og er tilbúið að gera það sem það getur gert til góðs, til stuðnings og til beinna verka eftir því sem þörf kallar og geta leyfir.

Hvað get ég gert?, hvað þarf að gera??

 

Til að gerast meðlimur þarf að senda nafn og kennitölu ásamt lágmarks upplýsingum um hvað fólk treystir sér í.  Bílstjóri flýgur ekki flugvél, flugmaður semur ekki ræður, sagnfræðingur útbýr ekki ákæru um landráð á hendur landráðafólki.

Að gerast meðlimur í Hreyfingu lífsins er afstaða um að ætla að gera eitthvað.

Engin stríð hafa unnist með her sem er bara með.

Og herinn þarf að ganga í takt.

 

Og eini takturinn sem ólíkt fólk með ólíkar lífsskoðanir og markmið í lífinu, getur sameinast um, er að verja það sem það hefur.

Menn verja samfélag sitt fyrir þeirri ógn sem sækir að.  

Samfélagið er ekki fullkomið, af og frá, en það er, og það eina sem við þekkjum

 

Mesta brenglun óvinarins sem getur gripið fólk í vörninni gegn honum er þegar það fer að rífast innbyrðis um meintar breytingar á þessu samfélagi, breytingar sem það getur aldrei orðið innbyrðis sammála um. 

Og í stað þess að beina vopnum varnarinnar í eina átt, að óvininum, þá beina menn þeim innbyrðis, á samherja í baráttunni.

Eða það sem verra er, menn ná ekki til fjöldans, því fjöldinn spyr, af hverju eruð þið að fara að breyta þegar það þarf að verja.

Þess vegna er Andófið í dag með innan við 5% fylgi og ógnar valdinu sem ætlar að skuldaþrælka börnin okkar, minna en Emil maur sem ætlaði að kirkja fílinn.

 

Þeir sem sjá þetta ekki eiga ekkert erindi í Hreyfingu lífsins, þeir eru ekki að verja framtíð barna sinna.  Þeir eru að þjóna egói sínu og persónulegum metnaði, og þjóna með því óvininum en ekki vörn lífsins gegn honum.

Í fyllingu tímans mun fólk sjá þetta, og Hreyfing lífsins mun springa út sem Samstaða um lífið.  Og leggja að velli óvinin eina.

Í dag er Andófið fullt af fólki sem vill vel, en hefur ekki náð takti því það skynjar ekki lífsháskann sem blasir við.  Það heldur að sundrað í mörgum smáhópum muni það hola múra valdsins eins og dropinn eini sem svarf Jökulsárgljúfur.  En það svarf enginn dropi Jökulsárgljúfur, þetta var ein flóðbylgja sem vall niður hálendið og ruddi sér farveg til sjávar.

Aðeins þannig mun óvinur sem virðist ósigrandi, verða sigraður.

 

Þessi umræða verður þróuð betur eftir helgi þegar fjöldi streymir að.  

Fjöldi þessa fólks sem hefur svarað spurningunni Hver ég er.

 

En lífið heldur áfram og í dag er þvottadagur og núna þarf að fara þvo börnum um eyra. 

Síðan um Pistla lífsins kemur einhvern tímann í dag eða á morgun.  Litla hliðarsjálfið sem sendir Kveðju að austan, þarf líka að senda nokkur skot til þeirra sem sviku land og hugsjónir fyrir að fá að vera skítmokstrar valdsins. 

Hér fyrir neðan, í athugasemdarkerfinu verður Póstfangið og linkur á Fjölmiðil lífsins, sem er aðeins til, en þarf að dafna.

Það hefur þegar einn haft samband, og sá næsti mun auka þá tölu um 100%.  Svo aukningin verður alltaf margföld frá því sem núna er.

Á meðan heldur lífið sínum gang.

 

Undir merkjum Hreyfingar lífsins.

 

 


Og þar með var hafist handa.

 

Fyrir ekki svo löngu var haldinn stjórnarfundur í Byltingu lífsins sem tók af skarið.

Mættir voru ég og ég, og annar og hinn.

Annar er gamall félagi úr skærum Byltingarinnar og er betri en enginn í að leysa smá vandamál sem aðrir sjá ekki lausn á.

Hinn er vísir af dýpri hugmyndaþróun Byltingar lífsins því til lítils er barist í grennd ef atburðir í fjarlægð grafa undan tilveru lífsins. 

Bylting lífsins þarf bæði að takast á við grenndina og fjarlægðina, heyja orrustur í nútíð en búa sig undir stríð í framtíð þar til fullur sigur er unninn á því ógnarafli sem ógnar tilveru alls lífs á jörðu.

Illskunni sem telur að hún megi allt ef hún græðir á því.

 

Vopn Byltingarinnar eins og Hagfræði lífsins og Aðferðafræði lífsins, að ekki sé minnst á Galdur lífsins, helsta vopnabróðir Byltingarinnar, allt var rætt og hugsað, nálgun og framsetning, tilgangur og markmið.

Og raunveruleikinn líka, það sem þarf að gera í dag, á morgun og hinn.  

Og hvað hreyfing sem er ekki fjölmenn þó hún sé ekki einmenn, geti gert.

 

Svarið var svo augljóst að það var ekki hægt að tala um það sem niðurstöðu.

Að hefjast handa.

 

Nokkrar ákvarðanir voru teknar.

 

Sú fyrsta að kljúfa þennan vettvang í tvennt, að stofna sér síðu um Pistla lífsins þar sem hugmyndafræðinni og forsendum hennar er haldið til haga án þess að drukkna í pistlum hina praktísku hluti.  

Þessi síða heldur síðan utan um hina praktísku hluti.  

 

Stofnaður var Fjölmiðill lífsins á Feisbók, lítið akörn að Satt, vopninu sem mun að lokum leggja óvininn eina að velli.

Stofnað var Póstfang lífsins, postfanglifsins@simnet.is sem sér um skráningu meðlima í Hreyfingu lífsins.

Og verkefnalisti næstu daga var saminn.

 

Um það fjallar næsta færsla.

 

Frá Hreyfingu lífsins.

 

 


Jæja, nú er komið að því segja bændur.

 

Eins og ég rakti í fyrstu færslu minni á þessu bloggi þá  fékk Bylting lífsins Kall sem þurfti að sinna og því var sinnt eftir bestu getu.

Því meir var ekki hægt að gera en maður getur gert.

Það Kall ásamt mjög praktísku atriði, að öll stjórn Byltingar lífsins var mjög upptekin við að láta Hnykkjara lífsins (hann fær þennan titil fyrir að láta kreppta grettna menn rétta úr sér og brosa) brjóta á sér bakið sem auk margs annars takmarkaði mjög starfsorku hennar.  Störf hennar í ytra lífi, sem eru hvorki mikil eða merkileg, ásamt því að halda lífi í auglýsingamiðli Byltingarlífsins, blogginu sem kennt er við Kveðju að austan, sem aftur minnir stjórnina á að þetta blogg þarf sína eigin Kveðju, tóku þá orku sem í boði var.  Og rúmlega það.

 

Svo gerðist það einn fagran vetrardag og annan að tilkynning kom um að Liljur Vallarins væru aðkrepptar og myndu ekki fara fram fyrir flokk lífsins, Samstöðu.

Það átti reyndar eftir að stofna þennan flokk, en hann hlaut að spretta uppúr Samstöðu, flokki lýðræðis og velferðar.

Þá var haldinn neyðarfundur í stjórn Byltingar lífsins, eins og venja full mæting, og málin krufin og rædd, hvað er hægt að gera.  Því augljóst var að eitthvað þurfti að gera.

Það þyrfti að ráðast á rót vandans, af hverju sprettur Samstaðan um lífið ekki upp af akri lífsins??

 

Einum um úr stjórn, mér var falið að semja pistla um hvað þyrfti til að hinn venjulegi maður, sem heyrði Kall, því ekki er tímabært að ræða um þá sem ekki heyra, svaraði því Kalli.

Og nokkrir pistlar voru samdir á löngum tíma, sá síðasti í gær.

Í millitíðinni var ljóst að allur kraftur væri uppurinn í flokknum sem Bylting lífsins batt vonir sínar við.

Og eitthvað varð að gera meira en að skrifa pistla um hugmyndafræði.

 

Það þyrfti að gera það sem þyrfti að gera, að halda út í stríð við ógnaröflin.

Um það var annar stjórnarfundur haldinn.

Sem greinir frá í næsta pistli.

 

Frá Byltingu lífsins.


Næsta síða »

Um bloggið

Hreyfing lífsins.

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Í upphafi var orðið.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband