Þriðja færsla. Pistlar lífsins.

Víða hef ég skrifað svokallaða grunnpistla þar sem ég reyni að koma ákveðinni hugsun eða skoðun  á framfæri um ákveðin grunnmál. 

Sá fyrsti og sá sem mér þykir vænst um er í pistlaröðinni, Guð blessi Ísland og heitir Guð blessi Ísland, Hvað er til ráða?.

http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/866336/

Þar orðaði ég fyrst þá skoðun mína um siðlega nálgun á uppgjöri á Hruninu;

"Forystan felst í að sameina þjóðina um þessi grunnmarkmið. T.d átti að segja strax að eitt heimili sem eyðist vegna kreppunnar er einu heimili of mikið. Að segja að við séum það smá þjóð að hin einu raunverulegu verðmæti okkar sem þjóðar erum við sjálf. Þess vegna reynum við að vernda allt líf, hvort sem það er aldraðir, sjúkir, öryrkjar, langveik börn, einhverf börn, börn með geðræn vandamál og svo framvegis. Og ekki hvað síst hvort annað. Blóðfórnir Finna frá bankakreppu þeirra má ekki og á ekki og mun ekki endurtaka sig á Íslandi. Þess vegna sköpum við samstöðu og einhug um þá lífsýn að við séum öll eitt, með sömu örlög og framtíð. Þess vegna verndum við atvinnu okkar og velferðarkerfi. Og við verndum hvort annað."

 

Einhvern tímann í framhaldinu kom pistillinn "Frysting verðtryggingarinnar er ekkert val", sem ég birti aftur og aftur, síðast 12. feb á þessu ári.

http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1222312/

 

"Standi þjóðin ekki saman þá er þjóðarvá í vændum og ekkert getur hindrað yfirvofandi hrun þess samfélags sem við þekkjum og vorum svo stolt af. Vissulega voru skuggar í því samfélagi og það villtist af leið á meðan mýrarljós græðgi og sérhyggju var sá ljósgjafi sem lýsti upp efnahagslífið. En lífið er ekki fullkomið og önnur samfélög eiga líka við sinn vanda að glíma. En þjóðin stóð saman á erfiðleikatímum og það var hugsað um þá sem áttu undir högg að sækja sökum aldurs, sjúkleika eða annars sem gerði fólk erfitt fyrir í sinni lífsbaráttu. Staða foreldris skipti ekki máli þegar kom að því að mennta börnin og öll börn nutu sömu heilsugæslu.

En núna vilja græðgiöflin rjúfa þessa sátt. Þau höfða til síngirni fólks og öryggisleysis. Segja að þjóðin hafi ekki efni á að hjálpa unga fólkinu. Það sé of dýrt og það verði á kostnað ellilífeyri þess. Segja að það eigi að standa við gerða samninga. ".

 

Áfram hélt vegferðin, innan um skammir og stríð reyndi ég að orða hugsun þess sem maður þurfti að skilja til þess að einhver von væri fyrir börnin manns um lífvænlega framtíð.

Stóri pistillinn var kannski, Pabbi, viltu sjá afabörn þín sem  ég endurbirti síðan núna í vor undir heitinu, Draumurinn eini. Draumur okkar allra.

http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1236161/

 

"Svarið er líka mjög einfalt, vegna þess að harmur okkar er brot af heimsins harmi. Og vinnumenn Tregðunnar, siðblint auðvald er að rústa framtíð barna okkar. Vörn okkar, byggð á mennsku og mannúð hins siðaða manns, byggð á viti og þekkingu hins skynsama manns mun tryggja okkur sigur. Sá sigur mun gefa öðrum manneskjum, sem líka glíma við þursa Tregðunnar, þá von og þá hvöt sem þarf til að líta í sinn eigin barm, og segja Nei við þeirri lygi, að við hinn venjulegi maður séum aðeins leiksoppar höfðingja og auðmanna, og Já við þeirri staðreynd að við erum upphaf og endir alls. Að vilji okkar til lífs og framtíðar sé það afl sem siðmenningin hefur til að viðhalda sér. Að það séu við sem munum sigra Tregðuna, og skapa börnum okkar framtíð. "

 

Á undan þessum pistli kom annar, heitir There is something out there,  

http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1236149/

þar sem ég fjalla um ógnina sem bíður okkar í nálægðri framtíða, það er ef vitleysingarnir fá frítt spil með að spila með framtíð mannsins. 

Mörgum finnst svona tal vera svartsýni, að við eigum að vera bjartsýn á framtíðina.  Sem ég er, en aðeins vegna þess að ég tel að við þurfum að koma vitleysingunum frá völdum, og að það sé hægt.  

 

"Fyrir mig var hann upphaf nýrrar Sýnar, þeirrar Sýnar að ég taldi að það væri á mínu valdi að tryggja framtíð barna minna. Flóknara var það ekki. Og ætti ekki að vera flóknara hjá öðrum. En það er annarra að svara fyrir sig. Hvort sem það er í orðum eða gjörðum. Orð eru til alls fyrst, skrái þau hugsun lífsins þá mun sú hugsun lifa á meðan einhver lifir til að tileinka sér hana. Gjörðin ræður svo hvernig fer, því fyrr sem fólk tekur afstöðu með framtíð barna sinna, því fyrr hefst barátta lífsins. Því fyrr myndast Hópur lífsins, þvi fyrr fá Liljur vallarins að blómstra í Samstöðu og trú um að lífið, þrátt fyrir alla sína galla, sé þess virði að berjast fyrir.

There is something out there.

Vonin, trúin, lífið.

Við sjálf.

Annað skiptir ekki máli."

 

Það er vonin sem er þarna úti, vegna þess að við sjáum og skiljum, og viljum ráða sjálf okkar framtíð.

 

Tveir síðustu pistlarnir eru hluti af ritröð sem hófst 5. apríl 2012, með pistlinum Það er frjór jarðvegur fyrir nýja hugsun, henni lauk svo ekki fyrr en með ósömdum pistli þegar þetta er skrifað, pistlinum um Fallega fólkið.

Þar er ég að bregðast við öðru Kalli, frá Ljóðskáldi lífsins, sem bað mig að draga saman pistla mína og hugsun þannig að aðrir mættu lesa.  Annars var þetta hér og þar og allsstaðar, meðal annars ósamið.  

Í athugasemdarkerfið hér að neðan ætla ég að taka þessa pistla fyrir, birta tenglana og um hvað þeir fjalla.  Þetta gerist hægt og hljótt, ætla samt að klára meginmálið á morgun.  

Þar með er kominn einn staður sem hægt er að nálgast allt meginefnið, sem er þó aldrei fullkomið því á mörgum stöðum hefur maður reynt að gera atlögu að þessari nálgun á vörn mannsins, sem ég kenni við Hreyfingu lífsins.

Njótið sem njóta vilja, þetta er þarna og fer ekki neitt.

Kveðja að austan.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Guð blessi Ísland, Hvað er til ráða?.

http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/866336/

Frysting verðtryggingarinnar er ekkert val

 
Draumurinn eini. Draumur okkar allra.
 
 
 

Ómar Geirsson, 29.8.2012 kl. 10:44

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Það er frjór jarðvegur fyrir nýja hugsun.

er grunnpistill þar sem ég orða fyrst í pistli minni mig hagfræði lífsins og þá á þann hátt að ég tek dæmi um þá hugsun sem að baki liggur.  Fjórða færsla hjá Hreyfingu lífsins er einmitt um þau hugtök siðmenningarinnar sem er forsenda lífs á jörðu.

 
"Því þjóðfélag mannúðar og mennsku viðurkennir aðeins eina hagfræði, hagfræði lífsins.

Sem byggist á tveimur grunnprinsippum, að öðrum sé ekki gert það sem þú vilt ekki að þér sjálfum sér gert og þú lítur eftir þínum minnsta bróður.  

 

Þar með er svo margt augljóst.  

Hver vill láta bera börn sín út á gaddinn í þágu dauðs fjármagns???  Enginn, þar með berð þú ekki annarra manna börn út á gaddinn.  Þar með er lína lögð hvernig á að tækla skuldir heimilanna, það borgar enginn meir en hann getur.  Rómverska leiðin, að setja skuldara í þrælahlekki er þar með úr sögunni eftir 2.000 ára notkun.

Hvernig bregst þú við tekjumissi vegna aflabrests eða að fjármálakerfið hrynur???

Jú, þú jafnar áfallinu niður með því að prenta peninga að því marki að allir hafa í sig og á.  Þú skerir ekki niður grunnþjónustu eða sveltir fólk, það leiðir aðeins til átaka og ofbeldis, sem er hinn mesti kostnaður sem samfélag orðið fyrir.  "

Ómar Geirsson, 29.8.2012 kl. 10:55

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Páskavikan er hátíð andans.

http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1232818/

er næsti pistill sem kom þar á eftir.  Las hann aftur áðan, hann er ágætur og mætti lesast reglulega.

Og hann er sannur, alveg satt.

"Sumu er hægt að svara, til dæmis ef maður spyr sig hver er tilgangur lífsins, þá er svarið aðeins eitt að gefinni þeirri forsendu að þú hafir getið af þér líf.

Tilgangur lífsins er að gera það sem þarf að gera að lífið sem maður gat fái öll þau tækifæri sem í manns valdi er að veita til að ná að vaxa og dafna og geta af sér nýtt líf.

Í gegnum tíðina hafa nógu margir gert sér grein fyrir þessum tilgang því smátt og smátt hefur heimurinn batnað, kynslóð eftir kynslóð voru lögð drög af mestu velsæld og velmegun sem sagan kann frá að greina.

Nútímann.

 

En um leið hefur maðurinn kynslóð eftir kynslóð lagt drög að sínu eigin falli.

Í dag, Nútímanum hefur hann loksins náð tökum á þeirri tækni að geta útrýmt sjálfum sér.

Og það er öruggt að hann mun gera það ef hann nær ekki að hemja villidýrið í sjálfum sér.

Saga mannsins er saga stríða og átaka.  Hvort sem það er saga ríkja, samfélaga eða í smærri mynd ofbeldi milli manna, innan fjölskyldna, gegn þeim sem eru veikir og smáir.

Haldi sagan áfram að endurtaka sig þá einn daginn hættir hún að endurtaka sig. 

Síðasta blaðið í sögu mannsins verður óskráð því enginn verður eftir til að skrá það.

 

Er nokkuð við þessu að gera, eigum við ekki bara að lifa okkar lífi og vona það besta?

Að þetta reddist einhvern veginn?

 

Það er öruggt að þetta reddast ekki, ekkert reddast til lengdar af sjálfu sér.

Og sagan mun endurtaka sig ef hinn siðaði maður rís ekki upp gegn villidýrunum í mannsmynd sem engu eira í þrá sinni eftir völdum og áhrifum eða þeim sem telja fjársöfnun eina tilgang tilveru sinnar.  Og hafa lagt undir sig samfélög okkar og mótað þau eftir sínu höfði þannig að stöðugt streymi gulls í fjárhirslur þeirra er regla sem er æðri öllum öðrum.  

 

Framtíðin er því í höndum hins siðaða manns.  Að hann nái saman.

Saman um rödd lífsins.

Sem er aðeins ein og var skráð í bækur fyrir um 2.000 árum síðan.

Og við höfum haft um 2.000 ár til að skilja.

 

Í dag er kennslustundinni lokið og nemarnir þurfa að yfirgefa kennslustofuna og halda út í lífið og takast á við vanda þess og hættur og gera það sem þarf að gera að mannkynið stigi næsta skref í þróun sinni og þroska. 

Fyrsta skrefið var sú merka niðurstaða að það var öllum í hag að við hættum að éta hvort annað, núna þurfum við að feisa að tími drápa er liðinn.  Í sjálfu sér ekki svo flókið, mjög auðvelt í framkvæmd en krefst einbeitts vilja því tíminn er knappur. 

Aðferðafræðin er jafn auðveld í framkvæmd.  Í árdaga tók ein manneskja þessa róttæku ákvörðun að hætta þiggja kjöt af annarri manneskju, og það sem meira er, hún fitjaði uppá nefið og sagði, "auujjj bara, ertu að éta annað fólk, vilt þú vera étinn??".  Og þá leit annar á disk sinn, hugsaði sig um eitt augnablik, lagði hann svo frá sér og horfði með sambland að viðbjóði og vorkunn á þann þriðja.

Og í dag eru mannætur álitnar mjööög skrýtnar.

 

Þetta er einföldun en svona gerast byltingar.  Þær koma innanfrá, og þær breiðast út frá einni manneskju til annarrar.  Og smán saman verður hið einstaka að sérstöku, síðan að almennu og loks að hinu viðtekna.  Og stefnir að því að verða hið algilda.

Svona mun bylting lífsins eiga sér stað, að einn maður rísi upp, "segi ég er, ég vil lifa og ég vil að líf mitt lifi".  Þegar annar maður hlustar mun sá þriðji gera það, og The Rolling Stones mun sjá um restina.

Byltingin verður ekki stöðvuð, en vandinn í dag er að sagan má ekki endurtaka sig.  Þess vegna er ögurstund mannsins, bylting hans verður að eiga sér stað áður en einhver brjálæðingurinn nær að ræsa gjöreyðingarferli tortýmingarinnar.

Og þá erum við aftur komin að okkur sjálfum, hvað er að eiginlega sem við getum gert gegn þeim reginöflum tregðunnar sem engu eira og öllu vilja eyða.  Hvað getum við gert???  Er þetta ekki allt vonlaust???  Þó ég skilji, hvað með alla hina, hvað með tímann, hvað????, hvað???, Er eitthvað???, get ég????.

Og svarið er ákaflega einfalt, svo einfalt að það er skýring þess að bylting lífsins er ekki hafin, fólk fattar það ekki, sér ekki það sem við blasir.

 

Að sjálfsögðu getum við gert þetta.  Hver annar á að gera það fyrir okkur????

Þeir sem öllu vilja eyða????

Eigum við ekki öll líf sem þarf að vernda???  

Viðurkennum við ekki  að "tilgangur lífsins er að gera það sem þarf að gera að lífið sem maður gat fái öll þau tækifæri sem í manns valdi er að veita til að ná að vaxa og dafna og geta af sér nýtt líf."

Og þar með er bylting lífsins komin undir okkur sjálfum."

Ómar Geirsson, 29.8.2012 kl. 11:00

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Næst komu þrír pistlar um hvernig á að gera byltingu, það er byltingu sem tekst, en ekki klúðrast.  Bendi á taktík, að aðstæður ráði gjörðum, það er styrkur og geta gagnvart því vandamáli sem glímt er við.  Undirliggjandi sú hugsun að List hins mögulega ræður för.  Vil vekja athygli á stóru skýringu þess að valdið situr óhaggað,  það er dæmið um Watt Tyler, hans raunasaga gengur aftur og aftur.

"Í Englandi var gerð uppreisn á svipuðum tíma, og þar átti Ríkarður II ekki séns á móti fjölmennum her uppreisnarmanna.  Því bauð hann leiðtoganum til viðræðna, tók í hendurnar á honum, og bað hann um að senda herinn heim.  Síðan lét hann drepa leiðtogann, Watt Tyler, sem lærði sína síðustu lexíu, að þú átt ekki að treysta blíðmælgi yfirstéttarinnar.  Minnir um margt hvernig VinstriGrænir láta spila með sig í dag.  Þeim er boðið sæti við valdsborðið, svona rétt á meðan þeir nota styrk sinn til að sundra Andstöðunni, síðan verður þeim hent á haugana því hugmyndafræðilega þá eiga þeir enga samleið með því auðvaldi sem þeir þjóna svo dyggilega í dag."

Og þetta þurfa menn að skilja áður en skuldaánauð barna okkar verður að veruleika.

"Hvað fór úrskeiðis hjá BH (afsprengi andófs Búsáhaldarbyltingarinnar).  Að mínum dómi var það að liður eitt yfirtók lið tvö og þrjú.  Atburðinn var svo harkalegur að menn fóru í naflaskoðun á honum, en vanmátu yfirvofandi hættu, og höfðu ekki skilning á því að móta hugsjónir um framtíðina.  

Á hættutímum rífast menn ekki um aukaatriði, hvað þá um það sem miður fór í fortíð, heldur kryfja menn það ef það gagnast til að bregðast við hinni yfirvofandi ógn, en annars fylkja menn liði og verjast.  Og ef menn hafa skýra sýn á hættuna, skýra sýn um þau vinnubrögð sem menn leyfa til að ná markmiðum sínum og  skýra sýn á framtíðina og inntaki hennar, þá þola menn náunganum ágreining, og menn láta ekki deilur eyðileggja vörnina, aðeins óyfirstíganlegur máttur andstæðingsins sigrar, ekki eigin klaufaskapur og ístöðuleysi.

Á endanum snýst þetta allt um að standa í lappirnar.  Vera manneskja.  Og gera það sem rétt er.

Og allt sem var til staðar í haust, er til staðar núna.  Og fólkið er gott.  Þá snýst næsta skref aðeins um viljann og skynjun á nauðsyn þess að gera eitthvað.  

En þeir sem skynja ekki ógnina í dag, þeir eru úr leik."

Hér eru linkar á fyrstu 2 pistlana, sá þriðji fær sér athugasemd.

 

Ómar Geirsson, 29.8.2012 kl. 11:14

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Bylting byltinganna.

http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1233095/

er fyrsta tilraun mín til að orða Byltingu lífsins, atrenna sem kom að kvöldlagi í athugasemdarkerfi mikils byltingamanns sem veitti mér innblástur fyrir mörgum af mínum fyrstu skrifum.  

Ítreka að það er reynt að tjá hugsun, af vanmætti, ekki má láta stíl eða framsetningu yfirskyggja innihald pistilsins.  

En í athugasemdarkerfinu útskýri ég mína nálgun á hvernig Andófið getur raunverulega ógnað valdinu.  Langt, en það sem er þess virði að segja, er sjaldnast sagt í fáum orðum, ekki þá fyrr en öll rökuppbygging er að baki og menn viðurkenna forsendurnar.  Þá er niðurstaðan náttúrulega, "Við verðum að reyna".

"Það þarf ekki að ræða að valdsstjórnin er ósiðuð, annars væri búið að ná sátt um heimili landsins.  En það sem ég hamra á er að núverandi valdsstjórn er aðeins angi viðbjóðslegs kerfis sem hefur lagt undir sig Vesturlönd og með eitri sínu og siðlausri græðgi hefur lagt bein drög að endalokum siðmenningarinnar.

Skiljir þú þessi orð Jón og Gunna, og alvöruna sem að baki býr þá skalt lesa áfram en annars hætta að lesa og eyða kröftum þínum í að skamma hið augljósa, áfram með þeim árangri sem við blasir, ENGUM.

Inntak orða minna er ekki að benda á hið augljósa, um hvað er að, heldur að benda á leiðina sem þarf að fara til að væntanleg fórnarlömb viðbjóðsins, hinn venjulega manneskja, nái að sameinast um markmið og í framhaldinu, að mynda afl sem nær að leggja óvininn eina, hið viðbjóðslega kerfi auðránsins að velli.

Ég bendi á nauðsyn Hugljómunarinnar, til að skapa þann kraft og vilja sem þarf til að hinn venjulegi maður stigi fram og spyr sig spurningarinnar, "Hvað get ég".

Hugljómun er eitthvað sem þú beinir fram á við, ekki afturábak.  Hún skapar þann grundvöll að ólíkt fólk með ólíkan bakgrunn nái að samsinna sig hvort öðru í verki sem það telur öllu máli skipta fyrir framtíð sína og sinna.

Ég er að tala um Hugljómunina um lífið, um hagfræði lífsins, og þá aðferðarfræði sem þarf til að fólkið, fulltrúar lífsins nái fram markmiðum sínum í baráttunni við óvininn eina.  

Þið komuð fyrst inná þráð hjá mér þar sem annar ágætur mætti í fyrsta sinn, Jón nokkur Jón Jónsson.  Hann vitnaði líka í ágætan baráttumann, gamlan sveitunga minn, Þórarinn Einarsson.   Hjá honum er til staðar kraftur og vilji til aðgerða en aðferðarfræði hans, Hugljómun hans höfðvar til þröngs hóps.  Það sama má eiginlega segja um alla andstæðinga hins hefðbundna kerfis, þeir ná ekki að virkja fjöldann þó fjöldinn sjái að hið gamla kerfi virki ekki nema í þágu örfárra ofurríkra, vegna þess að nálgun þeirra er of þröng, of tengd einhverju sem fólki finnst ekki ganga upp.  

Og það er meinið við allar þær lausnir sem eru í boði (ýmsar útgáfur kommúnisma, anarkisma, nýaldarhyggju, eða hvað þetta heitir allt saman) að þær ganga ekki.  Ekki frekar en kerfið sem á að leysa af hólmi.

Það er aðeins ein leið, eitt kerfi sem gengur upp.

Það er lífið, hagfræði lífsins.  ,

Þar sem mótív þekkingar og aðgerða eru siðleg, þá falla þau eins og flísin, í réttar skorður.

Ástæða þess að ég er að birta þessa pistla síðustu daga má rekja til samtals míns við einn af stuðningsmönnum lífsins, Pétur Örn, Liljumann, þar sem ég ræddi við hann um hvað þyrfti til að ég tæki þátt í starfi sem tengdist að móta nýtt framboð.  

Svarið var einfalt, ef framboðið hefur sig uppúr argþrasinu og slær Nýjan tón.

Með öðrum orðum er á astralsviðinu, en á því sviði mun lausn mannsins verða mótuð.  

Samantekt þessa pistla er svo mín samantekt á því sem þarf.  Auk svo margs annars.  

Sumt er ekki flókið, það þarf bara að gera það."

Ómar Geirsson, 29.8.2012 kl. 11:21

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Næst kom syrpa um Sphie Scholl og Hvítu Rósina, um að svara Kalli og fékk sína athygli á Færslu 2.  En á eftir kom syrpan um Sannleiksnefnd sem tæki til að gera upp erfiða fortíð án þess að það skaði framtíðina.

"Réttlæti fellst ekki í því að refsa, heldur að byggja upp nýtt og betra, að hindra fórnarlömb glæps framtíðar."

Reyndar tekið úr pistlinum um Byltingu Byltinganna, en í pistlinum 

Hugleiðing um sannleikann og framtíðina,

http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1233475/

má lesa þessa útlistun á réttlæti.

"Ekki það að réttlæti skipti ekki máli.  En það er grundvallarmunur á réttlæti og réttlátri framtíð.  Og það er lítið réttlæti sem lætur sér duga að gera upp við einstaklinga, en ekki kerfið sem skóp þá.  Hvað þá ef sú barátta festir verri birtingarmynd siðleysisins í sessi.   Þjóðfélög Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru ekki réttlát og í þeim eiga börn alþýðufólks sér enga framtíð.  Þar eru þau aðeins ódýrt vinnuafl, ekki manneskjur."

Eitthvað sem menn mættu spá betur í.  

Í þessum pistli er líka smá útskýring afhverju svik VG við hugsjónir sínar væru höfuðsvik, og dæmi tekin af frægasta svikara fornaldar sem fékk nafn sitt tengt við slíkt atferli.

"En eitt nafn lifir, og það er nafn Hippíasar, fyrrverandi harðstjóra (Tyran) Aþenu, sem bauð Daríusi þjónustu sína til að endurheimta sín fyrri völd í Aþenu.  Þá hjó sá sem hlífa skyldi, Hippías notaði hæfni sína og þekkingu til aðstoða óvininn í stað þess að verja sitt fólk.

Og hefur verið fyrirlitinn æ síðan."

sem er glæpur Steingríms og félaga.

"Kannski eru þær ógnir sem Steingrímur sá í spákúlu sinna ráðgjafa það mikil að honum féllust hendur, en það gaf honum ekki vald til að svíkja stefnu sína og hugsjónir.  Skorti honum kjark eða þrek til að berjast við Helstefnu Nýfrjálshyggjunnar, þá átti hann að víkja og hleypa viljugum baráttumanni að, en EKKERT gaf honum rétt til að ganga til liðs við óvininni og afvopna þar um leiða alla Andstöðu gegn honum.

Í því eru hin grundvallarsvik fólgin."

Maður gefst ekki upp fyrir Nýfrjálshyggjunni, aldrei.

"Nýfrjálshyggjan er siðlaus ræningja stefna.  Eðli hennar er að fá sem mest út úr fórnarlömbum sínum með sem minnstum tilkostnaði.  Og hún drepur fólk.  Og það mun hún gera á Íslandi.  Allstaðar þar sem ein birtingarmynd hennar, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur náð ítökum, þar hefur fólk fallið, sem annars hefði lifað.  "

Af hverju???

"Enginn leiðtogi mun ná að sameina þjóðina um réttlæti skuldaþrælsins.  Og ef hann trúir því að græðgi Nýfrjálshyggjunnar sé eitthvað náttúrulögmál, sem ekki er hægt að breyta, og því snúist starf hans um gera gott úr þjóðfélagi sem notar lungann af sínum tekjum til að borga vexti og afborganir til erlends auðvalds, þá hefur hann lesið stöðuna hrikalega vitlaust.  Og skiptir þá engu hversu góður og gegn hann er að öðru leyti og hve vel hann vill.   Og þá skiptir heldur engu máli hver gerði hvað, hverjum og hvurs, og allt það."

En sumir vilja bara ræða um stjórnarskrá eða skeggið á sjálfum sér.

Ómar Geirsson, 29.8.2012 kl. 11:41

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Rökin fyrir sannleiksnefnd.

http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1233477/

fjallar um List hins mögulega, og sannleiksnefnd er eitt alöflugasta tæki sem mannsvitið hefur smíðað þar um.

"Og sú uppstokkun mun ekki eiga sér stað meðan endalaust er hægt að blekkja með þessum árþúsunda gömlu trikkum að hengja nokkra fallna til að létta þrýsting á kröfunum um grundvallarbreytingar.  Því það eru ekki gerendurnir sem skipta máli, heldur kerfið sem skóp þá.

Og Mandela, hann sá þetta fyrir, enda hafði hann nægan tíma til að hugsa málin á meðan hann dúsaði í dýflissum aðskilnaðarstefnunnar.  Og hann hafði persónuleika til að sannfæra landa sína um gildi þess að byggja upp nýja og betri framtíð, í stað þess að fara í blóðugt uppgjör við fortíðina.  Uppgjör sem enginn vissi hvað kæmi út úr og enginn vissu hver stæði uppi sem sigurvegari.  Því gerendur fortíðar hafa bæði völd og fjármuni til að kaupa sig inn í raðir byltingarmanna.  

Þess vegna bauð Mandela fyrirgefningu gegn iðrun og upplýsingar um alla glæpina sem framdir voru.  Þar með voru allar rotturnar flæmdar úr skúmaskotum sínum, sem annars voru tilbúnar að nýta sér öll tiltæk ráð til að fela og hylma yfir sína starfsemi, og hindra að réttlætið næði til þeirra.  Og til þess höfðu þeir mörg vopn, en þeir áttu ekkert vopn gegn sakaruppgjöfinni, segðu þeir ekki sjálfir frá, þá voru þeir öruggir um að aðrir segðu til þeirra.  

Í þessu var snilldin fólgin.  Öfl sem gátu hindrað framtíðina voru strax brotin á bak aftur.

Og við hefðum betur farið þessa leið."

Ómar Geirsson, 29.8.2012 kl. 11:45

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Sannleikurinn mótar framtíðina.

http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1233650/

er ein af þessum lykilgreinum sem náði að verða stutt, enda búið að draga fram rökin í undanfarandi greinum.  Hún er merkileg fyrir það að þar minnist ég fyrst á Galdur lífsins, sem er alveg stórmerkilegt fyrirbæri.

"Aðeins sterk sameinuð andstaða mun ná að hindra þessi illu örlög okkar.

Andstaða sem gerir sér grein fyrir að ekkert er  mikilvægari en framtíðin.  Ekkert egó stærri en réttur barna okkar til mannsæmandi lífs. 

Fólk þarf að finna sér sinn vettvang þar sem það getur tjáð sig, um hvað því finnst, um hvað það telur að þurfti að gera.  Og athugað síðan hvort aðrir séu á svipaðri línu. 

Skoðanir sem þola ekki umræðu eða andstæð sjónarmið, eru ekki merkilegar skoðanir. Og sá sem á ekki til umburðarlyndi, hann á ekki til hugsjón, sýn hans er þá úr einhverjum öðru akri sprottin.

 

Það þarf forystumenn sem hafa hæfni til að sjá sameiginlega fleti, og fylkja fólki um sameiginleg markmið.   Markmiðið að vinna að betri heimi.  

Forystumenn sem átta sig á að vígaferli leiða aldrei til betri heims.

En hafa um leið þann styrk sem þarf til að berjast við kerfi ráns og siðleysis, þess siðleysis sem segir að allt sé rétt ef gróði hlýst af.

Og hafa siðferði til að þekkja muninn á réttu og röngu.

Og sannfæringu um að trú á lífið og hagfræði lífsins sé það eina sem geti bjargað manninum frá sjálfum sér.

 

Sé það til staðar þá mun allt hitt gerast af sjálfu sér.

Því það er galdur lífsins."

 

Ómar Geirsson, 29.8.2012 kl. 11:49

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Ómar Geirsson, 29.8.2012 kl. 12:35

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Hvenær ætla menn að skora heimskuna á hólm??

 
er spurning sem spurð var og af skapaðist fjörugar umræður.
 
En af hverju var spurt???
 
"Það er almenningur þessa lands sem heldur hagkerfinu, þjóðlífinu, samfélaginu gangandi.

Ekki fémenn og gróðabrall þeirra.  

Fémenn mega missa sig, almenningur ekki.

Almenningur, heimilin eru ekki að biðja um ölmusu, þau krefjast leiðréttingar á mannanna verkum, að skuldir þeirra hækki ekki sjálfkrafa við hverja óstjórn, við hvert gróðabrall sem springur í hagkerfinu."

Og í athugasemdarkerfinu hegg ég enn einu sinni í þá sem halda að tuð um aukaatriði nái að sameina andófið.

"Ég hef stundum sagt að það sé ekki málið að fara í framboð ef ég fyndi 5 manneskjur þarna úti sem gætu rætt um vanda þjóðarinnar út frá því sem við viljum í framtíðinni en ekki út frá því sem gerðist í fortíðinni.  Að menn ræði hvað menn vilja fá og hvernig þeir ætli að fara að því en lendi ekki strax í tuði um Sjálfstæðisflokkinn þetta og Sjálfstæðisflokkinn hitt, eða það sem verra er fjórflokkurinn þetta, fjórflokkurinn hitt.  

Eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé upphaf og endir alls, eins og menn hafi ægivald Gengis Kahns og geti útrýmt rúmlega helming þjóðarinnar og hafist síðan handa við að byggja upp eitthvað nýtt og betra, líkt og þeir séu fullkomnir, alvitrir og falli ekki ofaní pytti valds og tregðu eins og það vel meinandi fólk sem reyndi sitt besta innan fjórflokksins.

Eins og það þjóðfélag sem fjórflokkurinn byggði upp hafi verið vont og ekki hlúð af þörfum þegna sinna.

Eins og það eigi ekki sjálft Sýn eða stefnu sem það geti rætt um á sínum forsendum.  Því þegar þú talar alltaf um hvað fór miður hjá hinum, hvað þeir eru ómögulegir, þá snýst umræðan um þá, ekki þig, og til hvers er þá leikurinn gerður??

Að vera enn eitt tuðið í flóru tuðsins???  Enn einn smáflokkurinn sem engu skilar.??

Nei, Óskar það er ekki skortur á fólki sem vill í framboð, það er skortur á fólki sem boðar nýja Sýn.

Og þó ég sé vígfimur stríðsmaður, þá er ég fyrst og fremst boðberi, ég hegg vissulega, því það þarf að höggva, en fyrst og síðast þá nýti ég athyglina sem vígaferlin fá, til að hefja umræðuna frá vígaferlum til þeirra hugsunar sem fólk þarf að tileinka sér ef það ætlar að ráða sjálft örlögum sínum en ekki láta örlög sín ráðast af gjörðum höfðingjanna.  Sem því miður lúta ráðum hagfræði dauðans.

Vígaferli eru nauðsynleg, það þarf að verjast atlögum Ómennanna.  En þau leiða aðeins til frekari vígaferla ef mann hafa ekki Sýn um eitthvað annað og betra sem við tekur.  

Það er hlutverk boðbera, að birta mynd af þeirri Sýn.  En sá sem leiðir er ekki ennþá stiginn fram.

Mín kenning er að fólk eigi ekki að bíða, að það eigi sjálft að stíga fram og móta sér sinn vettvang um það sem ég kalla aðferðafræði lífsins.  Ég sé græðling í Samstöðu en það er aðeins mitt mat, tíminn á alveg eftir að skera úr um það."

Ég sá græðling í Samstöðu en það er okkar að hlúa að honum á réttum forsendum.

Og með Samstöðu er ég að tala um Samstöðu Andófsins gegn Heimskunni sem ógnar samfélagi okkar.  Núverandi Samstaða er aðeins mjór vísir af því sem þarf, og mun koma ef við gefum lífinu tækifæri.

Þetta er allt í okkar höndum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.8.2012 kl. 13:20

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Lokaorrustan um Ísland er hafin.

http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1246170/

er hvatningargrein sem beinir sjónum að sú umræða Andófsins sem er útí kú, eigi sér rætur sem er hagsmunir þeirra sem ætla sér að skuldaþrælka þjóðina.

Fer með því í athugasemdarkerfinu átti ég þessa klausu um Óbermin, má halda henni til haga.

"Bláköld alvara lífsins er bláköld alvara, ekki samsæriskenningar.

Þjófar og ræningjar, siðleysingjar og grimmdarseggir, ríða röftum í heiminum í dag undir merkjum alþjóðvæðingar sem er fínt orð yfir þrælahald og arðrán.  

Þeir virða engin landamæri, þeir stela öllu.

Fyrst og fremst ærunni, heiðarleikanum, réttsýninni, sem og innviðum samfélaga okkar á Vesturlöndum.  

Þetta eru mennirnir sem myrtu frelsið, stálu hræinu og vöktu það upp að hætti doktors  Frankentstein, og kenna svo öll illvirki sín við frelsi, frelsi í viðskiptum, frelsi til að rústa samfélögum fólks með því að flytja allt fjármagn úr landi, frelsi til að flytja inn örbjarga fólk og bjóða því smánarkjör í samfélögum þar sem velmegun ríkir.  Smánarkjör sem grafa undan atvinnu og rekstri heiðarlegs fólks.  

Skrýmslið kalla þeir frjáls viðskipti, frjálsan markað en í raun er þetta uppvakningur ættaður úr neðra, sem færir þjóðum heims aðeins auðn og dauða.

Þetta skrýmsli þarf að fella, eyða, útrýma, en ekki mennina sem hafa látið glepjast til fylgis við það.  Þá frelsum við, gerum þá frjálsa, sanna, heiðarlega.  

Gerum þá að fólki á ný.  

Sem er líklegast það versta sem er hægt að gera þessum Óberum en það er annað mál."

Ómar Geirsson, 29.8.2012 kl. 13:27

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Veruleikafirrt þjóð.

http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1245857/

er þjóð sem horfir ekki í kringum sig og sér hvað er að gerast.

Sér að það er ógnarafl sem stjórnar umræðu vitleysisgangsins, núna síðast deilan um virðisaukaskatt á gistþjónustu.  Sýndardeilur sem draga athyglina frá því sem í raun er verið að gera þjóðinni.

Svo er ástandið í Evrópu grafalvarlegt, og þjóðin þarf að vera tilbúin ef alvarleg röskun verður á alþjóðaviðskiptum.  

Ekki grafa undan undirstöðunum heldur styrkja þær.

En hugtakið samfélagsleg ábyrgð fékk hér merkingu.

"Hvað er til ráða???  Þú nefnir eina leið, þær eru örugglega fleiri.  En mig langar að minnast á hugtakið samfélagsleg ábyrgð, að enginn fái að reka fyrirtæki nema í sátt við sitt samfélag.  Vissulega áskorun en forsenda siðmenntaðs þjóðfélags."

Samfélagsleg ábyrgð er lykillinn að sátt fyrirtækjakapítalismans við samfélagið. 

Meir um það þegar þar að kemur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.8.2012 kl. 13:34

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Hér að ofan er samtekt af mikilvægum pistlum sem samdir voru áður en ég ákvað að fara suður og ræða um Byltingu lífsins, um Aðferðafræði lífsins, um Hagfræði lífsins og um hjálpartækið mikla, Galdur lífsins. 

Eftir það ákvað ég að semja triologíu um alvöruna, Kallið og Samstöðuna, triología sem verður reyndar 4 greinar því greinin um fallega fólkið verður samin fljótlega.

Þessar greinar má lesa á bloggi mínu, þetta eru lokagreinar þess í bili.

Fjórða færsla er svo um þessi hugtök, vonandi kemur hún líka á morgun.  

Fimmta færslan kemur svo þegar hún kemur, fer dálítið eftir þróun mála í ytra umhverfi.  

Kemur þegar hún kemur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.8.2012 kl. 13:39

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Fullfljótur á mér, hér er pistill sem verður að fylgja með.  Skammar Nýfrjálshyggjuna.

Líklegast verða athugasemdirnar fleiri, það eru greinar úti um allt sem mega alveg lesast í þessu samhengi sem er dregið upp hér á þessum þræði.  

En Nýfrjálshyggjan var það heillin.

Þjóðfélag sérhyggjunnar, græðginnar

"Það tók hina ofurríku aðeins 30 ár að eyðileggja Bandaríkin.  Voldugasta ríki heims sem hafði þróast og dafnað alla síðustu öld, í átt til velmegunar og velsældar, drifinn áfram af borgarlegum kapítalisma og siðfræði hins siðaða manns.  

Allt þar til að hinu ofurríku fannst ekki nóg að eiga aðeins 30% af þjóðarauðnum og lögðu drög að arðráninu mikla, að ræna sína eigin þjóð.  Til þess fjármögnuðu þeir hagtrúarbrögð, kennd við Nýfrjálshyggju þar sem  lögmálum hagfræðinnar var snúið á hvolf.  Lærdómur sögunnar hundsaður og sú samfélagssátt sem tryggði öllum líf og lífsgæði, var rofin. 

Þessi samfélagssátt kom ekki til að ástæðulausu, hún var svar hinnar siðvæddu borgarastéttar við um 200 ára átakferli þjóðfélaga Vesturlanda þar sem stéttirnar áttu stöðugt í átökum og vígaferlum.  Öld átakanna er þessi tími kallaður og lauk með samfélagsáttinni sem við köllum velferðarkerfi Vesturlanda.  

Þar sem öllum er tryggður lágmarks afkoma, menntun og heilsugæsla.  Og skapari velmegunarinnar er hinn kapítalíski markaður.  

 

Þessa sátt, þessa velmegun gerði Nýfrjálshyggjan að sínum sérstaka óvini og með því að höfða til hinna lægstu hvata mannssálarinnar, hvatanna sem sjá ekkert annað en sinn eigin rass, náði hún völdum.  

Og  árangurinn blasir við öllum í dag.

Arðrænd skuldum vafin þjóðfélög þar sem innviðir samfélaga eru miskunnarlaust skornir niður því ekki má skerða hár á höfði hinna ofurríku sem sífellt sösla undir sig stærri hlut af þjóðarauð Vesturlanda.  

Og nýjar átaklínur, því hinir rændu snúast alltaf til varnar, að lokum. "

Ómar Geirsson, 29.8.2012 kl. 13:44

15 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Flottar greinar hjá þér Ómar. Er ekki búinn að lesa allar en það sem ég er búinn að lesa er mikið til á sömu nótum og ég er að vinna að.

Við þurfum að gera byltingu lífsins.

Það sem ég bjó til var: "Nýi Sáttmáli" um manngildin og "Mennskaræði!" um hvernig má samtengja lýðræði og byggja upp nýtt þjóðfélag.

Þakka enn og aftur fyrir góða pistla!

Guðni Karl Harðarson, 29.8.2012 kl. 23:52

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk kærlega.

Bæði þessi skjöl fengu vistun í nýstofnaðri moppu hjá mér sem heitir Fallegt.  

Þar sem ég linka ekki á aðra án þeirra leyfis og ég hef ekki heldur opnað aðgang á þessa síðu, þá vildi ég spyrja hvort þú vildir senda mér athugasemd með beinum linkum á þessa frábæru vinnu sem þú hefur gert fyrir lífið.

Ég myndi þá keyra athugasemd þína sem sér pistil undir þessari þriðju færslu, það er pistlar lífsins.  

Eins er hægt að skjóta á mig pósti sem ég myndi birta, netfangið er 

omargeirs@simnet.is.

Það eru ekki margir sem lesa svona skrif núna, en það er eins og maðurinn sagði, "allt á sér sína byrjun, líka hið mikla".

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.8.2012 kl. 14:06

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk kærlega Guðni vildi ég sagt hafa. 

Kveðja,

Ómar Geirsson, 30.8.2012 kl. 14:07

18 identicon

Þú ert hið eina sanna skáld lífsins Ómar. 

Að fordæmi hvítu rósarinnar skrifar þú nú á sama sanna hátt, en bætir og útfærir það í nafni hvítu liljunnar.

Takk enn og aftur Ómar Geirsson, hið eina sanna skáld lífsins,

meðan ríkislaunaða menningarelítan hrýtur, sofandi að feigðarósi, sem fyrr.

Pétur Örn Björnnson (IP-tala skráð) 30.8.2012 kl. 16:32

19 Smámynd: Ómar Geirsson

Ég er nú bara faðir sem á líf sem þarf að vernda Pétur.

Og trúr þeirri visku að orð leiði af sér orð.

Með þeirri von að einn daginn skrifi maður sem hlustað er á, svipuð orð.

En það er aðeins einn maður Skáld lífsins, og það er ekki ég, og það er ekki honum að kenna að hann fatti það ekki ennþá.

Sumt er það sem það er, og er það þó menn haldi annað.

Skáldið mun skrifa Stjórnarskrá lífsins.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.8.2012 kl. 17:20

20 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Kæra þakkir fyrir lofið á skjölin mín. Ég sendi þér linkana til að setja upp, nú í kvöld eftir að ég kem heim úr vinnunni

Guðni Karl Harðarson, 30.8.2012 kl. 18:48

21 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Guðni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.8.2012 kl. 21:09

22 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Hér er fyrst linkur á skjalið: "Mennskaræði" 

http://www.mediafire.com/view/?juq2zhgwct82shq

Hér er svo "Nýi Sáttmáli" sem er eiginlega svona byggt á spurninga quotes:
Ath. þetta skjal er eingöngu ætlað til umhugsunar fyrir þá sem vilja.

http://www.mediafire.com/view/?a79twh65n3g902o

Ég sendi þér svo emai varðandi hitt.

Bestu kveðjur,
Guðni Karl

Guðni Karl Harðarson, 30.8.2012 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hreyfing lífsins.

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Í upphafi var orðið.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband