Fjórða færsla. Aðferðafræði lífsins.

 

Um Aðferðafræði lífsins má hafa mörg orð.

Hún er leiðsagnari okkar þegar við ætlum að láta eitthvað gott af okkur leiða.  

Þegar við viljum vel, ætlum að gera eitthvað gott, eitthvað fallegt.

 

Til dæmis að bjarga heiminum, eða gera öllum kleyft að lifa mannsæmandi lífi, eða gera gera umhverfi barna okkar þannig úr garði að þau njóti sín en finni um leið til öryggis.

Eða til láta drauma okkar rætast, hvort sem þeir snúa að okkur sjálfum eða öðrum, eða jafnvel að öllu lífi, eins og til dæmis drauminn um Frið á jörð.

Að ég tali ekki um Stóra drauminn, um himnaríki á jörð.

Eða þann fallegasta af öllum, "Þá verða allir menn góðir, góðir eins og blómin".

 

Aðferðafræði lífsins byggist á trú, á von og réttri breytni.

Hún kennir okkur að tilgangur helgar aldrei meðalið, að maður nái ekki fram réttlæti með rangri breytni, að góður tilgangur réttlæti aldrei illvirki, eða það praktíska vandamál, að þú lemur aldrei fólk í hausinn með tómri plastflösku ef það vill ekki skilja að þú ert að hjálpa því, eða reyna að fá það til að gera eitthvað því það er svo mikilvægt sem þarf að gera og svo framvegis.

Aðferðafræði lífsins viðurkennir manngildi allra, líf allra, rétt allra til tilveru, til þess að vera þeir sjálfir.

Um leið viðurkennir hún rétt okkar til að verja líf okkar, samfélög, hindra óhæfuverk hvort sem þau eru af völdum vitleysinga eða illmenna nema hvoru tveggja sé.  En við verjumst ekki á þann hátt sem við fordæmum aðra fyrir.  Við reynum að vera betri, sanngjarnari, réttlátari.

Við virðum lífið, við virðum réttlæti, undanbragðalaust.  Ekkert sem aðrir gera veitir okkur rétt til að gefa afslátt á grunngildum mennskunnar.  Ekkert.

 

Aðferðafræði lífsins hefur mörg orð í sinni þjónustu.

Meðal annars umburðarlyndi, umræða, skoðanaskipti, hlustun, virðing.  Og hún metur orð eins og góður, fallegur, fagurt, eða gleði, hamingja, húmor.

En hún er ekki heilög, hún viðurkenni líka breyskleika og að hvorki lífið eða heimurinn sé fullkominn.  Og sættir sig við að maðurinn sé það ekki heldur.

Hún aðeins vill vel, ætlar sér gott, að reyna bæta og betra, að fegra og kæta, að gera lífið svo lifandi að allir vilji lifa því, líka þeir sem aðeins sjá völd og auð, græðgi og fólskuverk.

 

Aðferðafræði lífsins er leið lífsins til að lifa af.

 

Gróska er eitt helsta vopn aðferðafræðinnar.

Gróska sálar, gróska mannlífs, gróska samfélags.  

Aðferðafræði lífsins ýtir undir allt sem eflir grósku. 

 

Hún er opin fyrir stuðningi við einstaklinginn, að hann fái notið sín, hugmyndir hans fái tækifæri til að vaxa og dafna, að hann njóti frelsis og svigrúms,  að umhverfi hans og samfélag sé opið og skapandi.

Gróska einstaklingsins leiðir til grósku í samfélaginu, gróskumikið samfélag, með listum og menningu, með sköpun og hugmyndaauðgi, er samfélag sem við viljum lifa í, og það er samfélag sem hámarkar þau gæði sem það getur skapað.  

Ein birtingarmynd þess köllum við framfarir og velmegun, hagvöxt og hagsæld.

 

Eitt lífið dæmi um hvernig hægt er að ná þessu marki, að stuðla að krafti og orku í samfélaginu, er að ýta undir mataræði sem gefur orku í stað þess að sjúga orku.  Að hollur matur sé eins ódýr og hægt er miðað við þau tæki og þekkingu sem samfélagið hefur á hverjum tíma.   Að það sé almenn þekking að nýta sér slíkan mat.  Og öllum kleyft. 

Annað dæmi er heilsuúrræði í sinni víðustu mynd,.  Að heilbrigðiskerfið sé opið og nýti sér þjónustu allra sem geta hjálpað, ekki bara kunnáttu þeirra stétta sem einoka það í dag.  Svo dæmi sé tekið frá mínu litla byggðarlagi að þá er hægt að tala um tímann fyrir og eftir komu liðlosarans í bæinn.  Margir fyrrum grettnir og fýldir svífa nú um bæinn, brosandi og heilsandi, búnir að fá bata meina sem hinar löggiltu stéttir gátu ekki hjálpað þeim með.

Það kostar að hjálpa, en þeim sem er hjálpað, skila því margfalt til baka.  

Gróska, bætt mannlíf, fegurra mannlíf.

Sem eru hinar raunverulegu forsendur kraftmikils atvinnulífs ásamt menntun og þekkingu, dugnaði og áræði.

 

Aðferðafræði lífsins, ásamt Hagfræði lífsins, með hjálp Galdri lífsins mun leiða mannkynið út úr núverandi ógöngum.  

Hún mun virkja mannvitið, skynsemina, þekkinguna og hún mun leysa úr læðingi hina ómældu orku sem býr í okkur öllum þegar við leggjumst á eitt í stríðinu mikla við Óvininn eina.

Í stríðinu mikla fyrir tilveru mannsins.

Í stríðinu gegn heimsku og fáfræði, græðgi og siðblindu, gegn fátækt og örbirgð, gegn mengun og rányrkju, arðráni og kúgun, gegn eyðingu og auðn.

Gegn þeim ógnaröflum sem engu eira.

 

Hún er svar mannsandans gegn Tregðunni, hún er svar Lífsins  við Skapadómnum um Endinn eina.

Hún er forsenda næstu byltingar, Byltingar lífsins þegar við kveðjum villimanninn og þjóðfélag hans og höldum inní nýjan heim, heim hins siðmenntaða manns.

Sem byggist á grunnboðorðunum fjórum.

 

Þú skalt ekki mann deyða.

Þú skalt ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að þér sé gert.

Þú skalt gæta bróður þíns.

Þú skalt virða rétt lífs til lífs.

 

Heim sem er forsenda þess að lífið sem við ólum fái tækifæri til að ala af sér nýtt líf.  

Sem er í raun okkar eini tilgangur með þessu lífi.

Allt annað er hjóm eitt.

 

Og við eru sú kynslóð sem þarf bæði að skilja forsendur þessarar byltingar, og framkvæma hana.

Seinna er of seint.

 

Við eigum öll líf sem þarf að vernda.

Og okkur ber skylda til að vernda það.

 

Sem við munum gera, þökk sé Aðferðafræði lífsins.

Hún er tæki okkar og tól til að skapa betra mannlíf, betri heim.

 

Hún er það besta í okkur sjálfum.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Í tengslum með þetta má lesa "Okkar Ísland" og "Sjálfbærniþorpið" (sem snýr einmitt um samveru fólks á þennan máta sem þú skrifar)

Okkar Ísland 1.04

http://www.mediafire.com/view/?yjn3zjmywty

 
Sjáflbærniþorpið:

http://www.mediafire.com/view/?mki2tno089gi65b

Guðni Karl Harðarson, 30.8.2012 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hreyfing lífsins.

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Í upphafi var orðið.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 328

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband